Nýtt frumvarp að lögum sem eiga að taka við af kjararáði gerir ráð fyrir því að ráðherra fái heimild til að hækka laun kjörinna fulltrúa í júlí 2019, umfram þær hækkanir sem þeir hafa þegar fengið. Þetta kemur fram í vikulegum pistli Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ), sem birtur var í dag.
Þar segir Drífa enn fremur að framúrkeyrsla kjararáðs umfram kjarasamninga frá 2015 hafi nú þegar kostað skattgreiðendur 1,3 milljarð króna. „Mér dettur í hug ýmislegt sem hægt væri að gera fyrir þá peninga, til dæmis að hækka húsaleigubætur.“
Samþykkt var á Alþingi í fyrrasumar að leggja kjararáð, sjálfstætt ráð sem er falið var það verkefni að ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins, niður. Það var gert í kjölfar þess að starfshópur sem skipaður var af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra lagði slíkt til í febrúar 2018.
Sá hópur var skipaður eftir að ákvarðanir kjararáðs höfðu síendurtekið valdið illdeilum á vinnumarkaði og hneykslun í samfélaginu. Bar það hæst sú ákvörðun kjararáðs í október 2016 að hækka laun forseta Íslands, þingfararkaup alþingismanna og laun ráðherra. Samkvæmt úrskurði kjararáðs urðu laun forseta Íslands 2.985.000 krónur á mánuði, þingfararkaup alþingismanna 1.101.194 krónur á mánuði, laun forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi varð 2.021.825 krónur á mánuði og laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi urðu 1.826.273 krónur á mánuði. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent.
Ósætti um hvernig ætti að leiðrétta útafkeyrslu
Áðurnefndur starfshópur var sammála um að kjararáð hafi í ákvörðunum sínum um kjör æðstu stjórnenda ríkisins farið langt umfram viðmið rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá árinu 2015, ákvarðanir þess verið óskýrar, ógagnsæjar og ekki samræmst fyrirmælum í lögum um störf ráðsins. Lagði starfshópurinn til að auk þess að kjararáð yrði lagt niður myndi útafkeyrsla þess verða leiðrétt.
Ekki náðist hins vegar sátt í hópnum um með hvaða hætti útafkeyrslan yrði leiðrétt. Alþýðusamband Íslands (ASÍ) vildi að það yrði gert strax, með lækkun launa. Meirihluti starfshópsins vildi hins vegar ekki framkalla lækkunina strax heldur „frysta“ laun þeirra þar til þau nái viðmiðum rammasamkomulags.
ASÍ taldi að með því að frysta haldi þessi hópur ekki einasta „ofgreiddum launum“ heldur fái áframhaldandi ofgreiðslur þar til frystingunni lýkur. Þegar upp væri staðið myndi útafkeyrsla kjararáðs kosta ríkissjóð um 1,3 milljarða.
Gera alvarlega athugasemd við heimild til launahækkunar
Þann 30. nóvember lagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð. Það er nú til meðferðar hjá efnahags- og viðskiptanefnd þingsins.
ASÍ skilaði inn umsögn um frumvarpið í dag, 11. janúar. Þar eru meðal annars gerðar „alvarlegar athugasemdir við að til standi að hækka laun allra þeirra ráða- og embættismanna sem breytingin nær til þann 1. júlí n.k. þrátt fyrir að fyrir liggi að laun æðstu stjórnenda ríkisins hafi hækkað langt umfram almenna launaþróun. ASÍ leggst sömuleiðis gegn því að ráðherra fái heimild til þess að hækka laun umrædds hóps þann 1. janúar ár hvert til samræmis við áætlaða breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins og leggur til launin taki breytingum einu sinni á ári þegar mat Hagstofunnar á breytingu reglulegra launa ríkisstarfsmanna liggur fyrir í júní ár hvert.“