VR mun hækka mánaðarlaun starfsmanna sinna um 42 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2019. Það er sama krónutölu hækkun og VR krefst í núverandi kjaraviðræðum. Þessi hækkun gildir þó ekki um formann og framkvæmdastjóra VR. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag
„Starfsmenn VR, eins og aðrir félagsmenn, eiga samkvæmt kjarasamningi rétt á launaviðtali einu sinni á ári. Í ár var ákveðið að almennt myndu allir starfsmenn fá sömu hækkun eins og við erum að krefjast til handa öllum öðrum félagsmönnum okkar, eða 42.000 kr. á mánuði frá og með 1. janúar 2019,“ segir Stefán Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri VR.
VR gerir kröfu um að lágmarkslaun verði 426.000 árið 2021
Í kröfugerð VR fyrir núverandi kjarasamningaviðræður sem samþykkt var 15. október 2018 segir að markmið með gerð komandi kjarasamninga verði að rétta hlut þeirra lægst launuðu og auka ráðstöfunartekjur allra félagsmanna. Í kröfugerðinni kemur fram að félagið telur mikilvægt semja til næstu þriggja ára. VR krefst því 42.000 krónuhækkun á launum frá og með 1. janúar 2019, þannig að lágmarkslaun verði þá 342.000. VR gerir síðan kröfu um að aftur að ári hækki öll laun laun um 42.000 þannig að lágmarkslaun verði þá 384.000. Að lokum gerir VR kröfu um að öll laun hækki um 41.000 frá og með 1. janúar 2021 þannig að lágmarkslaun verði 426.000.
VR gerir einnig kröfum að vinnuvika félagsmanna verði stytt, án launaskerðingar í 35 stundir á viku bæði hjá skrifstofu- og verslunarfólki. Ásamt því leggur félagið til að stórátak verði gert í húsnæðismálum þjóðarinnar og að vegna þess verði stofnað óhagnaðardrifið húsnæðisfélag og verði fjármögnun þess tryggð í kjarasamningi.
Að lokum gerir VR þá kröfu að stjórnvöld komi að gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, meðal annars með því að endurskoða persónuafslátt og tekjutengingar. Þá gera félagsmenn VR kröfu um skattleysi lægstu launa, lækkun vaxta og afnám verðtryggingar á neytendalán.