Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist vera þeirrar skoðunar að til lengri tíma litið eigi ríkið að draga sig úr því umfangsmikla eignarhaldi sem það er með á bönkum. Það þurfi meðal annars að gera vegna þeirrar áhættu sem fylgi svo umfangsmiklu eignarhaldi. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Þar sagðist Bjarni hafa talað fyrir því að ríkið verði áfram aðaleigandi Landsbankans, og eigi áfram 35 til 40 prósent hlut í þeim banka. Hann vilji þó að ríkið fari út úr eignarhaldi á Íslandsbanka.
Íslenska ríkið á sem stendur tvo banka, Íslandsbanka og Landsbankann. Heimild er fyrir því í fjárlögum að selja allt hlutafé ríkisins í Íslandsbanka og allt utan 34 prósenta í Landsbankanum. Samanlagt eigið fé bankanna tveggja í dag er um 411 milljarðar króna. Ríkisbankarnir greiddu eigendum sínum 207 milljarða króna í arð á árunum 2013-2018.
Bjarni segir að horfa verði til þess að arðgreiðslur á borð við þær sem greiddar hafa verið á undanförnum árum verði ekki þannig inn í eilífðina. Hann vonast til þess að hægt verði að hefja söluferli bankanna með markvissum hætti á kjörtímabilinu.
Í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er fjallað ítarlega um hvernig skuli standa að sölu á hlutafé í ríkisbönkunum, Landsbankanum og Íslandsbanka, og er horft til þess að nota skráðan markað til þess að endurskipuleggja eignarhald með þeim hætti, að dreift og traust eignarhald verði hluti af fjármálakerfinu til framtíðar.
Þá er einnig lagt til að það verði skoðað gaumgæfilega hvernig megi efla samstarf bankanna á sviði innviða í fjármálakerfinu, til að auka hagræðingu í bankakerfinu og bæta þannig kjör til neytenda.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði við RÚV á fimmtudag að hún sæi ekki fyrir sér að ríkisbankarnir yrðu seldir á þessu ári. Hún sagði það þó ekki hafa verið sína sýn né ríkisstjórnarinnar að halda Íslandsbanka. Það sem skipti máli sé að ríkið verði áfram leiðandi fjárfestir í Landsbankanum.
Mikill meirihluti vill að ríkið eigi banka
Alls eru 61,2 prósent landsmanna jákvæðir gagnvart því að íslenska ríkið sé eigandi viðskiptabanka. Fjórðungur þjóðarinnar, 25,2 prósent, hefur enga fastmótaða skoðun á slíku eignarhaldi og einungis 13,5 prósent Íslendinga eru neikvæðir gagnvart slíku eignarhaldi.
Þetta er meðal þess sem kom fram í rannsókn sem Gallup vann fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið og birtist með Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kynnt var í síðasta mánuði. Markmið könnunarinnar var að skoða ítarlega traust til bankakerfisins á Íslandi, hverjar væru helstu ástæður fyrir vantrausti og hvað mætti betur fara. Úrtakið var 1.408 manns 18 ára og eldri af landinu öllu. Þátttökuhlutfall var 54,5 prósent.
Þegar þeir sem eru jákvæðir gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka voru spurðir af hverju sögðu 24,4 prósent þeirra, eða tæplega fjórðungur, að ríkið væri betri eigandi en einkaaðili. Fimmtungur sagði að helsta ástæðan væri öryggi og/eða traust og 18,3 prósent vegna þess að arðurinn færi þá til almennings. Þá sögðu 15,7 prósent að helsta ástæða þess að þeir væru jákvæðir gagnvart því að ríkið sé eigandi viðskiptabanka vera þá að það þýddi að minni líkur væru á því að hlutirnir myndu enda illa og að spilling og græðgi yrði minni.