Sjávarafurðir eru meðal þeirra matvæla sem mest er svindlað með en vörusvik í viðskiptum með matvæli er stórt alþjóðlegt vandamál, samkvæmt sérfræðingi Matís. Rannsóknir benda meðal annars til þess að tegundasvik eigi sér stað með um þriðjung sjávarafurða sem seld eru í mörgum af helstu viðskiptalöndum Íslendinga.
Í grein sem Jónas Rúnar Viðarsson, sérfræðingur um örugga virðiskeðju matvæla hjá Matís, skrifar og birtir á vefsíðu Matís segir hann að hér sé um að ræða mikið hagsmunamál fyrir íslenska framleiðendur þar sem íslenskt sjávarfang eigi í samkeppni við „svikin matvæli“, auk þess sem „svikin matvæli“ séu hugsanlega seld sem íslensk framleiðsla.
Fimmta ráðstefnan í tengslum við verkefnið FoodIntegrity var haldin í Nantes í Frakklandi um miðjan nóvember síðastliðinn. Á ráðstefnunni voru kynntar nýjustu rannsóknir og lausnir til að takast á við matvælasvik. Þátttakendur voru rúmlega 300 talsins, frá 40 löndum. Í tengslum við verkefnið var framkvæmd könnun víðsvegar um Evrópu þar sem farið var í fjölda veitingahúsa og sýni tekin til tegundagreiningar, með erfðagreiningu. Íslensku veitingastaðirnir sem lentu í úrtakinu komu ekki vel út, samkvæmt Jónasi Rúnari.
Keila seld sem skötuselur
Það sem er nýtt í þeim niðurstöðum, sem birtar voru fyrir áramót, er að helmingur þess tegundasvindls – sem greint var hér á landi – var með innfluttan fisk. Jónas Rúnar segir í samtali við Kjarnann að vinsælt sé að svindla með túnfisk, hann sé notaður í sushi og þá sé ódýrari fiskur notaður í staðinn fyrir þann dýrari. „Það var líka verið að selja löngu sem þorsk, steinbít sem hlýra og keilu sem skötusel. Menn gera ekki greinarmun á þessu,“ segir Jónas Rúnar.
Matís er þátttakandi í FoodIntegrity-verkefninu og í þeim hluta ráðstefnunnar sem snéri að matvælasvikum í tengslum við sjávarafurðir var skoðað sérstaklega af hvaða toga slík svik eru helst, hvernig svikin fara fram, hversu mikil þau eru og hvernig má greina þau og koma upp um þau.
Jónas Rúnar segir að ljóst sé að svik með sjávarfang séu stórt vandamál en rannsóknir hafa leitt í ljós að tegundasvindl með sjávarafurðir er allt að 30 prósent. „Það telst einnig til matvælasvika þegar fiskur er seldur undir fölsku flaggi, þar með talið afli frá sjóræningjaveiðum, ef nauðungarvinna er stunduð við framleiðsluna og þar sem hreinlætiskröfum/matvælaöryggis er ekki gætt,“ segir í grein Jónasar Rúnars.
Svindl í öllum vöruflokkum
Jónas Rúnar segir að litlar breytingar hafi verið gerðar hjá eftirlitsaðilum, nema að núna sé þó meiri meðvitund um matvælasvik. Hann telur að fylgjast þurfi betur með því hvað selt er á veitingastöðum en ef að það eigi að gera það almennilega þá þurfi að setja meira fjármagn í eftirlitið. Sú spurning komi alltaf upp: „Hver á að borga?“
Hann segir að ekki sé einungis svindlað með fisktegundir. „Við sjáum svindl í öllum vöruflokkum en algengt er að svindlað sé með vörur eins og ólífuolíu, hunang, fisk, krydd og alkóhól,“ segir hann.
Meiri meðvitund um matvælasvindl nú en áður
Jónas Rúnar bendir á að sum lönd séu búin að auka eftirlitið til muna og sé Bretland gott dæmi um það. Þar vinni 80 manna hópur einungis við að uppræta svindl af þessu tagi. Jónas Rúnar telur mikilvægt að taka matvælasvik föstum tökum, þetta snerti neytendur og hafi skekkjandi áhrif á samkeppnisstöðu.
„Eitt helsta framlag FoodIntegrity verkefnisins í þeirri baráttu eru gagnagrunnar þar sem hægt er að fá upplýsingar um matvælasvindl og hvaða tól og tæki eru til staðar til að koma upp um slík svik. Auk þess er búið að gefa út sérstaka handbók og smáforrit,“ segir hann í greininni.
En þrátt fyrir að margt mætti betur fara, að mati Jónasar Rúnars, þá telur hann að verið sé að stíga skref í rétta átt hér á landi. Þegar FoodIntegrity-verkefnið byrjaði fyrir fimm árum hafi lítil meðvitund verið um matvælasvindl en nú finni hann fyrir breyttu viðhorfi til þess.