Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor, segir í ítarlegri grein í Vísbendingu, sem kemur til áskrifenda á morgun, um bankastarfsemi og fyrirhugaða sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkum, að ástæða sé til þess að fara varlega.
Bankarekstur sé áhættusamur og fari fram í ákveðnu „skjóli“ ríkissjóðs.
Í grein sinni segir Gylfi meðal annars að það geti einnig verið hættulegt að selja eignarhlutina til hæstbjóðanda, þar sem ekki þurfi að fara saman að vera æskilegur eigandi banka og að kaupa eignarhlutina á hæstu verði. „Það er full ástæða til þess að fara varlega þegar ríkisbankar eru seldir einkaaðilum. Þeir sem vilja greiða hæsta verðið fyrir bankann, sækjast mest eftir því að verða eigendur, eru oft þeir sem síst eru til þess fallnir að eiga og reka banka.“
Þá segir Gylfi einnig að bankarekstur sé samofinn áhættu ríkissjóðs á hverjum tíma, en það þurfi ekki að réttlæta það að ríkið eigi bankana að öllu leyti. „Vel reknir bankar eru mikilvægir fyrir hagkerfið. Þeir miðla fjármagni til þeirra fyrirtækja sem hafa góð fjárfestingatækifæri, fylgjast með rekstri þeirra og umbuna þeim fyrir að standa í skilum. Með því að láta fjármagn fara til þeirra atvinnugreina og fyrirtækja þar sem því er best varið stuðla bankarnir að bættum lífskjörum og hagvexti. En þegar eigendur lána sjálfum sér, vinum eða flokksmönnum og taka áhættu á kostnað skattgreiðenda þá er voðinn vís,“ segir Gylfi.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.