Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu var 193,6 stig í desember 2018 (janúar 2011=100) og lækkar um 0,7 prósent frá fyrri mánuði, samkvæmt Þjóðskrá Íslands.
Síðastliðna þrjá mánuði hækkaði vísitalan um 2,1 prósent og síðastliðna tólf mánuði hækkaði hún um 7,8 prósent.
Vísitala fasteignaverðs hefur hækkað um í kringum fjögur prósent á undanförnum tólf mánuðum, en nokkuð hefur hægst á fasteignaverðshækkunum eftir mikinn uppgang á árunum 2013 til og með 2017.
Á vormánuðum 2017 mældist hækkun fasteignaverðs 23,5 prósent, sem þá var mesta hækkun á ári í heiminum.
Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs.
Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir herbergjafjölda og staðsetningu. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 6 flokka íbúðarhúsnæðis. Niðurstaðan er vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 12 mánuði.
Birtingu vísitölunnar er ætlað að varpa ljósi á þróun leiguverðs samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma. Þjóðskrá Íslands áskilur sér rétt til að endurskoða vísitöluna aftur í tímann í ljósi fyllri gagna eða fágaðri aðferðafræði. Vísitalan er ekki ætluð til að verðtryggja fjárskuldbindingar.