Stjórn, trúnaðarráð og samninganefnd Eflingar hafna tillögum Samtaka atvinnulífsins í yfirstandandi kjaraviðræðum um breytingar á vinnutíma og útreikningi launa. Samkvæmt ályktun Eflingar ganga tillögur SA út á að víkka ramma dagvinnutímans úr 10 klukkutímum í 12, að taka kaffitíma út úr launuðum vinnutíma og að lengja uppgjörstímabil yfirvinnu. Í ályktuninni segir að framkvæmd þessara tillaganna yrði mikil afturför fyrir kjör almennings á íslenskum vinnumarkaði.
„Stjórn, trúnaðarráð og samninganefnd Eflingar hafna því að greitt verði minna fyrir vinnu utan núverandi marka dagvinnutíma, að sala kaffitíma verði misnotuð til að ná fram styttum vinnutíma og að atvinnurekendum verði gefið aukið vald til að ákvarða hvenær vinna er gerð upp sem yfirvinna og hvenær ekki.“
Ekki markmið kjarasamninga að efna til ómanneskjulegra samfélagstilrauna
Í ályktuninni segir að markmið kjarasamninga sé að verkafólk geti lifað af launum sínum. „Það er markmiðið, ekki að efna til ómanneskjulegra samfélagstilrauna á forsendum atvinnurekenda og á kostnað verkafólks.“
Í ályktuninni er bent á að stytting vinnuvikunnar sé krafa margra stéttarfélaga og að sú tillaga nýti vaxandi hljómgrunns í samfélaginu. „Stjórn, trúnaðarráð og samninganefnd Eflingar harma að Samtök atvinnulífsins standi gegn þeirri framför og leggi þess í stað til skerðingar á réttindum verkafólks varðandi vinnutímatakmarkanir,“ segir í ályktuninni.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að undir hennar forystu muni Efling aldrei fallast á samfélagstilraunir sem færa vinnumarkaðinn aftur í tímann. „Það virðist ganga illa hjá Samtökum atvinnulífsins að skilja að við höfnum með öllu hugmyndum þeirra um samfélagstilraunir sem munu færa vinnumarkaðinn áratugi ef ekki aldir aftur í tímann. 12 tíma vinnudagur er nú orðinn raunveruleiki í Austurríki. Efling undir minni forystu mun aldrei fallast á slíkt,“ segir hún.