Stórn Hvalaskoðunarsamtaka Íslands furðar sig á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagslega hagkvæmni hvalveiða við Ísland.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórninni, og eru gerðar miklar efnislegar athugasemdir við það sem fram kemur í henni. Meðal annars sé lítið gert úr mikilvægi þess að nýta hval við Ísland í hvalaskoðun. Fullyrðingar um rekstur hvalaskoðunarfyrirtækja standist ekki.
Þá segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, í samtali við RÚV, að skýrsla Hagfræðistofnunar sé um margt sérkennilegt innlegg í umræðuna, og gagnrýnir sérstaklega tal um náttúruverndarsamtök í skýrslunni. „Þeim er líkt við hryðjuverkasamtök og rætt um að þurfi að sérstaklega þurfi að setja lög til þess að vernda Ísland fyrir slíkum samtökum. Mér finnst það mjög sérkennilegt útspil frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands í garð þeirra náttúruverndarsamtaka sem hafa verið að berjast fyrir sínum málstað í hvalveiðum og bara ekki til að hjálpa umræðunni,“ sagði Katrín í samtali við RÚV í kvöld.
Í tilkynningu stjórnar Hvalaskoðunarsamtaka Íslands segir meðal annars að fullyrðingar séu rangar. Orðrétt segir í tilkynningunni.
„Í skýrslunni er því haldið fram að með því að auka hvalveiðar þannig að hrefnum og langreyðum sé fækkað um 40% frá því sem nú er megi skapa auknar útflutningstekjur á sjávarafurðum upp á annan tug milljarða króna árlega. Vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar hafna þessu og þar með eru meginforsendur fyrir niðurstöðu skýrsluhöfundar brostnar.
Í skýrslunni er gert lítið úr mikilvægi á nýtingu á hval með hvalaskoðun en 346.591 farþegi fór í slíkar ferðir á árinu 2018 sem jafngildir heildaríbúafjölda Íslands. Fullyrðingar um fjölda báta, laun starfsmanna og fleira standast ekki en lagt til að sérstök lög verði sett á starfsemina vegna þeirrar truflunar sem hún valdi hvölum við fæðuöflun. Aðildarfélög Hvalaskoðunarsamtaka Íslands fylgja leiðbeinandi reglum um hvalaskoðun og það er með ólíkindum að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands líti á það sem hlutverk sitt að leggja slíkt til um leið og hvatt er til aukinna hvalveiða einkum í því skyni að auka fiskveiðar sem ekki stenst vísindalega skoðun. Gefið er sterklega í skyn að hefja beri veiðar á hnúfubak sem er ein vinsælasta og ein mikilvægasta tegundin í hvalaskoðuninni. Engin tilraun er gerð í skýrslunni til að útskýra hvernig stórauknar hvalveiðar geta verið efnahagslega sjálfbærar né hvaða hliðaráhrif þær kynnu að hafa á aðrar útflutningsgreinar þjóðarinnar. Heldur ekki hvaða markaður væri fyrir þær viðbótarafurðir. Við gagnaöflun Hagfræðistofnunar varðandi hlut ferðaþjónustunnar var ekki haft samband við Hvalaskoðunarsamtök Íslands eða aðildarfélög okkar, ekki heldur Samtök ferðaþjónustunnar né Íslandsstofu. Þetta hljóta að teljast forkastanleg vinnubrögð af hálfu Hagfræðistofnunar.
Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands getur, að mati stjórnar Hvalaskoðunarsamtaka Íslands, ekki nýst til ákvarðanatöku um áframhaldandi hvalveiðar við Ísland. Skýrslan svarar ekki því sem henni er ætlað að svara þ.e. hvort hvalveiðar við Ísland séu og geti verið þjóðhagslega hagkvæmar. Viðurkennt er að veiðarnar hafi ekki verið arðbærar hingað til frá því að þær hófust árið 2009. Forsendur um þjóðhagslegan ávinning af auknum hvalveiðum eru rangar eins og staðfest er af sérfræðingum Hafrannsóknarstofnunar. Það verður ekki betur séð en að skýrsluhöfundur hafi lagt af stað með fyrirfram gefna niðurstöðu og kappkostað að tína einkum til það sem þjónaði þeirri niðurstöðu. Það hefur hins vegar mistekist og er útkoman illa rökstudd áróðursskýrsla fyrir áframhaldandi veiðum sem tekur ekki raunverulegt tillit til hvalaskoðunar, ferðaþjónustu að öðru leyti, alþjóðlegra hagsmuna Íslands né dýravelferðarsjónarmiða.
Þvi er það krafa Hvalaskoðunaramtaka Íslands að raunverulegt hagsmunamat fari fram þar sem fullt tillit sé tekið til hagsmuna hvalaskoðunar, ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina áður en nokkur ákvörðun er tekin um frekari hvalveiðar við Ísland.“