Þingmennirnir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem báðir standa utan flokka eftir Klausturmálið, mótmæltu því á fyrsta þingfundi ársins að hafa ekki fengið úthlutað ræðutíma. Karl Gauti sagði vinnubrögð þingforseta óboðleg.
Báðir töluðu þeir um fundarstjórn forseta við upphaf þingfundar en Karl Gauti kvartaði undan því að hvorki hann né Ólafur hefðu fengið að tala við umræðu á Alþingi í dag. Hann sagði þá Ólaf hafa tilkynnt þingforseta í desemberbyrjun að þeir hygðust starfa utan flokka og hafa með sér samstarf, og óskuðu þeir eftir því að tillit yrði tekið til samstarfs þeirra.
Ólafur tók einnig til máls en hann sagði vinnubrögð forseta Alþingis vekja furðu og valda vonbrigðum því hann hefði staðið í þeirri trú þar til rétt áður en umræðan hófst að hann myndi vera meðal ræðumanna. „Af hálfu skrifstofu Alþingis var okkur boðið að halda fimm mínútna ræðu en svo bregður við skömmu áður en umræður hefjast og að fulltrúi okkar yrði ekki á mælendaskrá,“ sagði Ólafur.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, svaraði þingmönnunum með því að engar óskir um þátttöku þeirra hefðu borist inn á hans borð. Ekki hefði verið hægt að hverfa frá því samkomulagi sem lægi fyrir um fundinn en hann sagði að réttur þeirra sem þingmenn utan flokka, eins og kemur fram í þingsköpum, verði virtur.