Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra iðnaðar, ferðamála, og nýsköpunar, segist oft finna fyrir því í heimsóknum sínum til nýsköpunarfyrirtækja, að margir í þeim hópi vilji gjarnan vera með annan gjaldmiðil heldur en íslensku krónuna.
Þetta kom fram í ræðu henni á Alþingi, þar sem hún veitti svör við spurningum sem Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingkona Samfylkingar, beindi til hennar.
Þórdís Kolbrún sagði að í hennar huga snérist verkefnið ekki um það hver skammstöfun gjaldmiðilsins væri - ISK eða eitthvað annað - heldur hvernig það tækist að vernda stöðugleikann í efnahagslífinu.
Það væri meginmálið, því með góðum ytri skilyrðum í efnahagslífinu þá væri hægt að vera með stöðugt rekstrarumhverfi. Hún sagði að það væri t.d. gert með opnum alþjóðlegum viðskiptum og aukinni framlegð, og festu í ríkisfjármálum og regluverki.
Hún sagðist hafa miklar væntingar til vinnu við endurskipulagningu á umhverfi fyrir nýsköpun á Íslandi, og í þeirri vinnu væri meðal annars horft til ákveðinnar nýsköpunar, til að fá sem flest sjónarmið að borðinu.
Ekki óeðlilegt að spyrja spurninga
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, beindi spurningum til Þórdísar Kolbrúnar um þriðja orkupakkann svonefnda, en málið er væntanlegt inn á borð Alþingis í febrúar næstkomandi. Þorsteinn spurði hvort málið væri með stuðning inn í Sjálfstæðisflokknum eða ríkisstjórninni.
Þórdís Kolbrún svaraði því til, að í hennar huga væri þriðji orkupakkinn rökrétt framhald af fyrri orkupökkum, og að það væri ekki tilefni til að fara í einhverja aðra vegferð, varðandi EES-samninginn, heldur en farin hefði verið til þessa.
Hins vegar væri umræða um málið í reynd ekki hafin í þinginu, og hún gæti ekkert fullyrt um stuðning við málið, á meðan svo væri. Það væri eðlilegt að rökræða um mál, og í hennar huga væri ekkert óeðlilegt við að það væru uppi ólík sjónarmið á þessu stigi málsins.
Sjálf sagði hún málið ekki fela í sér grundvallarbreytingar, frá því sem verið hefði.