Greiningardeild Arion banka telur að umtalsverð áhætta sé í því fólgin fyrir Sýn, að missa enska boltann úr dagskrárefni sínu. Þetta kemur fram í nýrri greiningu á rekstri Sýnar.
Enski boltinn mun fara úr dagskrárframboði Sýnar í haust, en eins og áður hefur verið greint frá, þá átti Síminn hæsta boð í enska boltann í útboði og verður með hann á dagskrá hjá sér, frá og með haustinu, næstu þrjú keppnistímabil.
„Vitanlega verður margt annað íþróttaefni til staðar hjá Sýn en enski boltinn er að okkar mati það efni sem hefur hingað til helst laðað viðskiptavini að íþróttastöð félagsins. Líklega mun verðlagning Símans á efninu ráða töluverðu um það hve marga viðskiptavini Sýn missir. Ef heildarkostnaður heimila við efniskaup á íþróttum verður áfram um það bil óbreytt gæti þessi breyting haft minni áhrif á Sýn. En ef kostnaðurinn hækkar þykir okkur líklegra að íþróttaefni Sýnar verði fyrir niðurskurðarhníf heimila en enski boltinn. Erfitt er að leggja með einhverjum haldbærum hætti mat á hve marga viðskiptavini félagið kann að tapa, en við gefum okkur þó í þessu virðismati þá forsendu að um 5 þúsund viðskiptavinir hætti að kaupa aðgang að Sportstöðvum félagsins, sem er megin ástæða fyrir spá um tekjusamdrátt 2020. Missir enska boltans hefur áhrif á kostnað líkt og tekjur. Ekki hefur verið uppgefið hver afkoma Sýnar hefur verið af enska boltanum og ekki einfalt að áætla heildaráhrifin,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.
Markaðsvirði Sýnar, sem skráð er í kauphöll Íslands, er nú 11,9 milljarðar, en samkvæmt verðmati greiningardeildar Arion banka er það á svipuðum slóðum, eða rúmlega 12 milljarðar.
Undanfarið ár hefur verið erfitt fyrir hluthafa Sýnar, enda hefur markaðsvirðið hrunið um rúmlega 40 prósent á einu ári. Félagið sendi frá sér tvær afkomuviðvaranir í lok árs, bæði í nóvember og desember.
Eigið fé félagsins var 10,4 milljarðar í lok þriðja ársfjórðungs í fyrra og heildareignir 26,5 milljarðar króna.
Í umfjöllun greiningardeildarinnar segir, meðal annars:
„Miðað við hversu döpur afkoma 2018 verður og í ljósi þess hvernig árið
þróaðist teljum við ástæðu til horfa á áætlun félagsins með þessum hætti. Við spáum að EBITDA þessa árs verði neðst í afkomubilinu sem
félagið hefur gefið upp og verði svo um 200 m.kr. lægri á næsta ári en félagið horfir til. Þá förum við jafnframt ekki neðar en í 9% af tekjum með
fjárfestingar félagsins, en það hefur sagst stefna að 8% hlutfalli. Virðismatið er byggt á núverandi samstæðu líkt og afkomuáætlun félagsins, þ.e.
með Hey í Færeyjum, enda á eftir að aflétta ýmsum fyrirvörum áður en sú sala verður frágengin.“
Ráðgjöf til fjárfesta er sú að halda bréfum í félaginu. Í umfjöllun greiningardeildarinnar segir meðal annars, að þróunin á virði bréfa félagsins að undanförnu hafi að einhverju leyti endurspeglast í breyttu rekstrarumhverfi. „Stjórnendur félagsins þurfa að sanna það fyrir markaðnum að það verði hægt að ná fram uppgefnum samlegðaráhrifum. Félagið virðist eiga undir högg að sækja í tveimur af stærstu tekjustraumunum, þ.e. í farsíma og fjölmiðlun, og þá óttumst við einnig að það muni reynast félaginu erfitt að bregðast við kjarasamningum meðan það stendur í miðri samlegðará líkt og raunin varð á síðasta ári. Að okkar mati hefur lækkun á verði bréfa Sýnar á síðustu mánuðum endurspeglað breyttar rekstrarhorfur þess,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.