„Það sem situr einna verst í mér eftir þetta kvöld er í fyrsta lagi það að muna ekki neitt frá því að ég kem inn á barinn og einum og hálfum sólarhring eftir. Það er algjört „blackout“. Algjört minnisleysi. Ég hvorki veit hvað ég gerði, ég þurfti að hlusta á upptökurnar, ég týndi fötunum mínum þessa nótt. Það er algjört „blackout“. Það hefur ekki komið fyrir mig áður. Þannig að ég velti því fyrir mér hvað í fjandanum gengur á þarna.“
Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og varaformaður Miðflokksins, í viðtali við Lindu Blöndal í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem verður frumsýndur klukkan 21 um kvöldið alræmda sem hann eyddi á Klausturbar í nóvember. Hann segist hafa týnt frakkanum sínum og lyklunum þetta kvöld.
Ásamt Gunnari Braga er Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, gestur þáttarins þar sem þeir ræða Klaustursmálið og endurkoma sína á þing í dag. Hægt er að sjá stiklu úr þætti kvöldsins hér að neðan.
Gunnar Bragi segir að reiðin í röddinni á þeim manni sem hafi talað á upptökunum af Klausturbar sé honum áhyggjuefni.
Þess vegna hafi hann verið að leita sér aðstoðar og þess vegna hafi hann ekki smakkað áfengi frá 20. nóvember. „Vegna þess að ég vil komast að því hvað þarna gerðist áður en einhver önnur skref eru tekin.“
Í þættinum ræða þeir einnig ítarlega um af hverju þeir ákváðu að snúa aftur á þing, hvort þeir hafi einhvern tímann hugleitt af alvöru að stíga endanlega til hliðar og viðbrögð þeirra sem urðu fyrir orðum þeirra á Klausturbar þann 20. nóvember sem nú þurfa að vinna með þeim á Alþingi.