Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar sem situr nú á þingi í fjarveru Ágústar Ólafs Ágústssonar, segir að þingmenn og ráðherrar hafi orðið fyrir því í morgun að hefja þingfund með fyrirsát Klaustursmanna, sem hafi tilkynnt þingheimi um endurkomu sína í fjölmiðlun í morgun. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hún hefur birt á Facebook.
Klaustursmennirnir sem hún talar um eru Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður Miðflokksins, og Bergþór Ólason, þingmaður sama flokks, sem snéru aftur á þing í dag.
Þar segir Jóhanna Vigdís að fyrirsátin sýni enga iðrun í garð fórnarlamba þeirra, sem þurftu sum hver að sitja þarna í þingsal undir nærveru þeirra, og þaðan af síður sjálfskilning téðra Klausturmanna.„Ég hef starfað á ýmsum vinnustöðum þar sem vinnustaðamenning hefur verið með ýmsum hætti, en það andrúmsloft sem er á Alþingi í dag er eitthvað sem ég hef aldrei kynnst áður. Endurkoma Klausturmanna, án þess að nokkrum hafi verið tilkynnt um það fyrirfram, gerir þingmönnum og ráðherrum erfitt um að sinna starfi sínu. Þetta er ekki boðlegt.“
Jóhanna Vigdís tók sæti Ágústar Ólafs á þingi 15. janúar síðastliðinn. Ágúst Ólafur er í leyfi rá þingstörfum eftir að hafa verið áminntur af trúnaðarnefnd flokksins vegna kynferðislegrar áreitni gegn blaðamanni. Samkvæmt tilkynningu sem Ágúst Ólafur sendi frá sér 7. desember ætlaði hann að taka sér tveggja mánaða leyfi.
Gunnar Bragi greindi frá endurkomu sinni í tilkynningu til fjölmiðla í morgun. Hann segir að stundum sé ákvarðanir teknar fyrir menn. „Fremur óvænt – en samt ekki - blasir svarið við því hvenær rétt sé að snúa til baka. Fyrstu dagar þingfunda á nýju ári, og framganga forseta Alþingis að undanförnu, er með þeim hætti að annað er óhjákvæmilegt en að nýta sér allan rétt til þess að vera inni á þeim leikvelli þar sem að mér er sótt og svara fyrir mig á þeim vettvangi en ekki utan hans. Þess vegna mæti ég á nýjan leik til starfa minna á Alþingi í dag.“
Bergþór Ólason greindi einnig frá því í morgun að hann ætli að halda áfram að starfa sem þingmaður. Það kom fram í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið í dag.
Þar fór hann yfir Klausturmálið svokallaða og eftirmála þess. Bergþór sagði margt hafa komið illilega við sig í málinu. „Mér fannst vond þróun að legið væri á hleri þegar annað fólk talar saman á veitingahúsum. Mér fannst vont að fjölmiðlar teldu sjálfsagt að birta slíkt drykkjuraus opinberlega og eiginlega enn verra hversu margir voru ánægðir með hvorttveggja. En verst af öllu fannst mér að heyra í sjálfum mér.“
Í dag urðu þingmenn og ráðherrar fyrir því að þurfa að hefja þingfund með fyrirsát Klausturmanna, sem tilkynntu...
Posted by Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir on Thursday, January 24, 2019