„Við erum að takast á við breytta stöðu, utan flokka, og ég segi fyrir mig, að nú endurskoðar maður stöðuna og metur hvernig sé best að leggja góðum málum lið,“ segir Ólafur Ísleifsson, þingmaður, um stöðuna sem hann og Karl Gauti Hjaltason, þingmaður, eru í á Alþingi, í samtali við Kjarnann í kvöld.
Þeir eru utan flokka eftir að hafa verið reknir úr Flokki fólksins í kjölfar Klaustursmálsins. Þeir voru á fundinum afdrifaríka á Klausturbar ásamt Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, Bergþóri Ólasyni og Gunnari Bragasveinssyn, sem dregið hefur mikinn dilk á eftir sér, eftir að upptökur af fundinum komu fram í fjölmiðlum, einkum hjá DV og Stundinni.
Ólafur segist líta svo á, að hann hafi ekkert gert af sér, á þessum tiltekna fundi, og það sé ekki hægt að rekja nein slæm ummæli til hans. Hann telji það sama eiga við um Karl Gauta.
Hann segir að það eigi að „blasa við“ öllum að hann og Karl Gauti hafi ekkert gert af sér. Fyrir þessu finni þeir núna, og geti - og verði - að meta stöðuna sem uppi er og hvernig sé besta að vinna úr henni.
Eitt af því sem komi til greina sé að stofna nýjan flokk. „Á okkur hefur verið þrýst, að gera það, því okkur var sparkað úr Flokki fólksins í hita leiksins,“ segir Ólafur.
Þeir voru báðir ósáttir við að fá ekki úthlutaðan ræðutíma við upphaf þings, en Ólafur segir að þingsköpin séu með ákveðna „brotalamir“ fyrir fólk utan flokka.
Tíminn á næstu misserum muni leiða í ljós, hvað þeir geri.
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var frá því greint, að þeir útiloki ekki að ganga til liðs við Miðflokkinn, en Ólafur sagði ekkert ákveðið með það, heldur væri staðan einfaldlega breytt, og nú þurfi að endurhugsa hvernig hægt sé að vinna að góðum málum. Málefnin muni ráða ferðinni, sagði Ólafur.
Á Alþingi eru 63 þingmenn og hafa stjórnarflokkarnar, Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn og Framsóknarflokkur, 33 þingmenn, en stjórnarandstöðuflokkarnir, Flokkur fólksins, Samfylkingin, Viðreisn og Píratar, 29 þingmenn. Ólafur og Karl Gauti eru síðan tveir utan flokka.