„Það eru margar mýtur um EES-samninginn sem menn hafa því miður haldið á lofti í einhverju annarlegum tilgangi. T.d. um að við tökum upp 90 prósent af öllu sem ESB er með. Þetta er 13,4 prósent. Það er gríðarlega stór munur þar á.“
Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut þegar þeir ræddu um málefni norðurslóða. Guðlaugur Þór sagði að áhugi Kínverja og Rússa á málaflokknum væri þekktur en auk þess væri mikill áhugi í Asíu í heild. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Verulega hefur dregið úr innleiðingahalla Íslands, bæði hvað varðar EES-tilskipanir og reglugerðir, á undanförnum árum. Hann er nú sá lægst sem verið hefur frá árinu 2010. Guðlaugur Þór segir þessa lækkun á innleiðingarhalla ekki snúast um að Ísland sé að taka upp tilskipanir frá Evrópusambandinu án gagnrýni. „Fulltrúar allra fagráðuneyta voru í Brussel. Því var breytt þegar við sóttum um aðild að Evrópusambandinu sem ég held að hafi verið afskaplega óskynsamlegt og við erum síðan að setja það upp aftur, það ferli. En við erum líka að skanna [reglugerðir og tilskipanir] með skipulegri hætti eins og þetta kemur á fyrstu stigum, sem er gríðarlega mikilvægt.“
Hann segir að Íslands sé farið að vekja athygli Evrópusambandsins á því að það sé hagur Íslands að það séu sömu leikreglur fyrir alla á innri markaðnum. „Þá má það ekki bara vera í orði, heldur þarf líka að vera á borði.“
Í þættinum ræddi utanríkismálaráðherra einnig meðal annars norðurslóðamál, þriðja orkupakkann og Brexit, svo fátt eitt sé nefnt.
Hægt er að sjá þáttinn í heild sinn hér að neðan.