Útlit er fyrir mun hægari hagvöxt á árinu 2019 en hefur verið undanfarin ár, samkvæmt uppfærðri þjóðhagsspá Íslandsbanka fyrir árin 2018 til 2020. Íslandsbanki spáir 1,1 prósent hagvexti á þessu ári en hagvöxtur var 3,7 prósent á árinu 2018 í heild. Í spánni segir að í ár muni einkaneysla, fjárfesting atvinnuvega og þjónustuútflutningur vera í hvíldarstöðu. Þó telur Íslandsbanki að áfram verði viðskiptaafgangur en bankinn spáir að hann muni nema 2,8 prósent af VFL í ár. Í spánni segir að búast megi við talsverðri verðbólgu á næstunni, spáð er að verðbólgan nái hámarki í þriðja ársfjórðungi þessa árs í 3,8 prósentum en verði í lok árs 3,6 prósent. Bankinn telur aftur á móti að ný uppsveifla muni hefjast á nýjum áratugi með 3,1 prósent hagvexti á næsta ári.
Nýr áratugur, ný hagsveifla?
Í spánni segir að núverandi hagsveifla hafi reynst lífseigari en margir hafi talið. Árin 2013 til 2017 var hagvöxtur að jafnaði 4,4 prósent ár hvert. Þar eigi uppgangur í ferðaþjónustu drjúgan hluta að máli ásamt fleiri hagfelldum þáttum sem ýtt hafi undir myndarlegan vöxt einkaneyslu og fjárfestingar.
Tölur fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2018 sýna áframhald þessarar þróunar. Hagvöxtur mældist 5 prósent á tímabilinu og segir í spánni að hann hafi ekki síst skýrst af allhröðum vexti einkaneyslu og hagstæðu framlagi utanríkisviðskipta til vaxtar. Ýmis merki eru hins vegar um að hægt hafi talsvert á vextinum á lokafjórðungi ársins og gerir bankinn ráð fyrir að vöxtur hafi verið 3,7 prósent á árinu 2018 í heild.
Eftir mikinn vöxt undanfarinna ára er útlit fyrir mun hægari vexti á þessu ári, samkvæmt spánni. Drifkraftar vaxtar undanfarinna missera munu allir verða í einhvers konar hvíldarstöðu á árinu. Einkaneysluvöxtur verður hægur, vöxtur þjónustuútflutnings lítill og samdráttur verður í fjárfestingu atvinnuvega frá fyrra ári. Íslandsbanki segir því að „2019 verður árið sem íslensk heimili og fyrirtæki pökkuðu í vörn.“
Aftur á móti eru horfur á að vöxtur glæðist með líflegum vexti einkaneyslu, endurkoma vaxtar í atvinnuvegafjárfestingu og áframhaldandi vöxtur annarrar fjárfestingar sem og vöru- og þjónustuútflutnings strax á næsta ári.
Heimilin herða beltin
Í spánni segir að leiðandi hagvísar benda til minni vaxtar á næstunni bæði hérlendis sem og erlendis. Efnahagshorfur séu erlendis nokkuð dekkri en verið hefur síðustu ár. Í spánni segir að meðal orsaka er óvissa tengd viðskiptaerjum Bandaríkjanna við önnur helstu hagkerfi heims, auk þess valdi Brexit áhyggjum, áhrif hækkandi vaxta í Bandaríkjunum og víðar, sem og miklar skuldir á heimsvísu.
Samkvæmt spánni gefa væntingar heimila og fyrirtækja býsna góða vísbendingu um hvert stefnir með innlenda eftirspurn í íslensku hagkerfi á hverjum tíma. Í spánni segir að væntingar þessara aðila hafi náð hámarki á árinu 2016 en á liðnu ári hafi þær hins vegar lækkað verulega og gefi það sterka vísbendingu um hægari vöxt á komandi fjórðungum. Bankinn bendir jafnframt á að lækkandi væntingar hérlendis séu þegar farnar að hafa áhrif á neysluhegðun heimila og fjárfestingaráform fyrirtækja. Áhrifin koma fram með nokkurri töf, en að bankinn telji að þau verði komin fram af fullum þunga þegar kemur fram á þetta ár.
Ennfremur segir í spánni að mikill gangur hafi verið á íslenskum vinnumarkaði undanfarin ár, hækkun launa hafi verið hröð og atvinnuleysishlutfallið lækkað jafnt og þétt. Árið 2016 hafi þenslan á vinnumarkaði náð hámarki og launavísitalan hækkað um 9,1 prósent, ásamt því hafi atvinnuleysi náð lágmarki í 2,8 prósentum árið 2017. Í ár muni aftur á móti hægja á einkaneysluvexti að mati Íslandsbanka. Áætlað er að einkaneysluvöxturinn hafi verið 4,4 prósent á síðasta ári en lækki niður í 2,7 prósent á þessu ári. Bankinn spáir því hins vegar að vöxturinn hækki í 3,4 prósent árið 2020. Auk þess muni atvinnuleysi aukast lítillega á næstu árum.
Spá 1,6 prósent hækkun á íbúðarverði á þessu ári
Fjárfestingarstigið í íslensku hagkerfi hækkaði umtalsvert um miðjan áratug eftir tímabil lítillar fjárfestingar árin 2009 til 2013, samkvæmt spánni. Þessi þróun var að stórum hluta knúin af verulegum vexti í atvinnuvegafjárfestingu. Nam fjárfesting ríflega 22 prósent af VLF á árinu 2017, en þetta hlutfall fór lægst í rúm 14 prósent árið 2010. Í spánni segir að síðustu árin hafi vaxtarbroddurinn í fjárfestingu hins vegar færst yfir í íbúðafjárfestingu og fjárfestingu hins opinbera.
Íslandsbanki telur að fjárfesting muni standa í stað á árinu 2019 þar sem áframhaldandi samdráttur atvinnuvegafjárfestingar vegur upp vöxt í annarri fjárfestingu. Hins vegar munu allir helstu undirflokkar vaxa árið 2020 og skila í heild 6,7 prósent vexti fjárfestingar það ár.
Jafnframt segir í spánni að mun betra samræmi hafi verið upp á síðkastið í þróun íbúðaverðs og kaupmáttar, enda hafi framboð íbúða aukist jafnt og þétt og heldur hafi dregið úr eftirspurn. Á árinu 2017 hækkaði raunverð íbúðarhúsnæðis margfalt umfram aukningu kaupmáttar launa, en til lengri tíma er vöxtur þessara stærða að jafnaði svipaður, samkvæmt spánni.
Íbúðaverð hækkaði um 5,2 prósent að jafnaði að raunvirði á nýloknu ári frá árinu á undan. Á þessu ári spáir Íslandsbanki aftur á móti aðeins 1,6 prósent hækkun raunverðs íbúðarhúsnæðis og 1,2 prósent raunverðshækkun árið 2020. Hægari kaupmáttaraukning, minni fólksfjölgun og áframhaldandi aukning á framboði nýrra íbúða eru meðal helstuskýringa á hægari hækkun íbúðaverð í spánni.
Hægari vaxtartaktur í ferðaþjónustu
Íslandsbanki segir að enn sé vöxtur í ferðaþjónustu þótt verulega hafi hægt á vextinum frá því hann var hvað hraðastur árin 2015 til 2016 þegar fjölgun ferðamanna milli ára nam 39 prósent. Árið 2018 var fyrsta árið sem gengi krónunnar styrktist ekki á milli ára frá því að vöxtur ferðaþjónustunnar hófst fyrir alvöru. Í spánni segir að krónan hafi farið að veikjast nokkuð síðastliðið haust eftir mikinn styrkingarfasa undanfarin ár sem þýði að Ísland sé orðið heldur ódýrara fyrir ferðamanninn en það var um mitt síðasta ár.
Að mati Íslandsbanka er ferðaþjónustan að færast í átt að auknu jafnvægi og telur bankinn að þetta ár verði prófsteinn á hversu vel ferðaþjónustunni tekst að takast á við „fullorðinsárin“. Bankinn spáir þó jafnframt vexti í ferðaþjónustu á næstu misserum en töluvert hægari en verið hefur.
Spá að verðbólga nái hámarki í 3,8 prósentum
Yfir árið 2018 var verðbólga 3,7 prósent og hefur ekki mælst meiri í fimm ár og í spá Íslandsbanki segir að útlit sé fyrir að verðbólga verði áfram talsverð á árinu 2019 og nái hámarki á 3. ársfjórðungi í 3,8 prósent, en hjaðni síðan jafnt og þétt. Bankinn spáir því að verðbólgan mælist 3,6 prósent í árslok 2019 en verði að jafnaði 3,2 prósent á næsta ári.
Íslandsbanki spáir þessu á þeim forsendum að laun hækki tiltölulega hóflega sem og húsnæðisverð þegar fram í sækir ásamt forsendum um lítið breytt gengi krónu. Í spánni segir að ef laun hækki meira en spáð hafi verið þá gæti það leitt til meiri verðbólguþrýstings þegar frá líður en samkvæmt spánni er kjarasamningar stærsti óvissuþáttur næstu mánuði.
Spá að viðskiptaafgangur verði í jafnmörg ár á þessum áratug og var frá stríðslokum að efnahagskreppu
Bankinn spáir að raungengi krónunnar verði áfram frekar hátt vegna þess að hrein eignastaða hagkerfisins er betri en hún hefur verið áratugum saman. Gengi krónunnar lækkaði um nærri 7 prósent á seinasta þriðjungi ársins 2018 eftir tímabil nokkuð stöðugrar krónu þá tólf mánuði á undan. Að mati bankans var þessi gengishreyfing fremur af hinu góða og til þess fallin að minnka hættu á vaxandi ytra ójafnvægi hagkerfisins til skemmri tíma litið.
Í spánni segir að viðskiptajöfnuður hafi aldrei á lýðveldistímanum verið hagstæðari en undanfarin ár og ef spá bankans gangi eftir muni talsverður afgangur verða af viðskiptajöfnuði út áratuginn. Samkvæmt spánni eru stoðir hagkerfisins í flestum skilningi traustar og horfur eru um ágætan vöxt til lengri tíma. Því ætti áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi að vera nægur til að vega upp það útflæði vegna vilja lífeyrissjóðanna til að fjárfesta út fyrir landsteinana sem ekki verður fjármagnað með viðskiptaafgangi. Allt þetta ætti að vega til tiltölulega hás raungengis út áratuginn, samkvæmt bankanum.
Gangi spáin eftir verður 2020 níunda árið í röð þar sem afgangur reynist af viðskiptum við útlönd. Útlit er fyrir að viðskiptaafgangur hafi numið 3,2 prósent af VLF á síðasta ári. Bankinn spáir því að viðskiptaafgangur muni nema 2,8 prósent af VLF í ár og 2,0 prósent af VLF árið 2020.