Stjórnmálaflokkarnir átta sem eiga sæti á Alþingi skipta á milli sín 744 milljónum króna af fé úr ríkissjóði í ár. Framlagið hækkar úr 648 milljónum króna í fyrra, eða um 96 milljónir króna á milli ára. Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins.
Ákveðið var að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka með ákvörðun sem var tekin milli jóla og nýárs 2017. Þá var framlagið á síðasta ári aukið um 127 prósent.
Framlagið skiptist niður á flokkanna átta eftir stærð. Mest fer til Sjálfstæðisflokksins, eða 178 milljónir króna. Vinstri græn fá 123 milljónir króna og þriðji stjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkur, fær 82,5 milljónir króna. Miðflokkurinn, sem hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga, fær 83,5 milljónir króna af skattfé til að standa undir starfsemi sinni næsta árið og en mest allra stjórnarandstöðuflokka fær Samfylkingin, eða 91 milljón króna. Píratar fá 72,5 milljónir króna, Flokkur fólksins rúmar 57 milljónir króna og Viðreisn 56 milljónir króna.
Mörg hundruð milljónir
Tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna í fyrra. Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Krónutöluhækkunin heldur áfram í ár og nú fá flokkarnir um 458 milljónum krónum meira en þeir hefðu fengið ef framlög ársins 2018, og framlög til framtíðar, hefðu ekki verið hækkuð með jafn umfangsmiklum hætti og gert var í árslok 2017.
Framlög líka hækkuð
Fulltrúar allra flokka á Alþingi, þar á meðal sex formenn stjórnmálaflokka, lögðu sameiginlega fram frumvarp til að breyta lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í lok síðasta árs. Það var svo afgreitt sem lög fyrir þinglok.
Á meðal breytinga sem það stuðlaði var að leyfa stjórnmálaflokkum að taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hámarksframlag var 400 þúsund krónur en var breytt í 550 þúsund krónur.
Auk þess var sú fjárhæð sem einstaklingur þarf að gefa til að vera nafngreindur í ársreikningum viðkomandi flokka eða frambjóðenda sé hækkuð úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund krónur.
Því hafa tækifæri stjórnmálaflokka til að taka við upphæðum frá einstaklingum og fyrirtækjum verið aukin samhliða því að upphæðin sem þeir fá úr ríkissjóði var rúmlega tvöfölduð.