Persónuvernd hefur sent íslenskum stjórnvöldum bréf þar sem þau vara við þeim hættum sem nú steðja að lýðræðislegum kosningum vegna samfélagmiðla. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við RÚV að í löndum Evrópusambandsins sé fólk að vakna til vitundar um misnotkun persónuupplýsinga á samfélagsmiðlum og þeim áhrifum sem það hefur á frjálsar kosningar.
Í fréttinni kemur fram að Vera Jourová, dómsmálaráðherra í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hafi komið á fund Ervrópskra persónuverndarforstjóra fyrir jól og vakið athygli þeirra á þeim hættum sem steðja að lýðræðinu í Evrópu. Helga segir að kosið verði til Evrópuþingsins í maí og einnig verði á árinu þingkosningar fjölmörgum þjóðríkjum sambandsins. „Stuttu skilaboðin sem komu frá Veru Jourová dómsmálaráðherra Evrópusambandsins voru þau að það verða engar kosningar eins hér eftir,“ segir hún.
Sigurður Emil Pálsson, formaður Netöryggisráðs, segir í samtali við RÚV að þetta sé hluti af mjög örri þróun nútímatækni. „Með þessari nútíma greiningartækni þá er hægt að búa til persónu snið af fólki í stórtækara mæli en áður hefur þekkst og þar með sérsníða með sjálfvirkum hætti upplýsingaumhverfi sem talið er henta hverjum og einum.“
Jafnframt kemur fram í fréttinni að Evrópusambandið hafi tekið saman leiðbeiningar um hvernig tryggja megi að kosningar verði sanngjarnar og frjálsar. Lagt sé til að sérstöku ráði verði komið á fót þar sem sitja fulltrúar stofnana sem hafa með kosningar að gera. Einnig að það verði upp á borðinu hvernig stjórnmálaflokkar auglýsa á netinu og að hverjum auglýsingarnar beinast. Stjórnvöld, stjórnmálaflokkar og fjölmiðlar grípi til aðgerða til að verja tölvukerfi sín og upplýsingakerfi fyrir hættum. Löggjöf verði hert um kostun stjórnmálaflokka og að þeir verði sektaðir sem brjóta persónuverndarlög.
Persónuvernd óskar eftir því að ráðherrarnir hafi forgöngu um að koma á fót samráðsvettvang allra þeirra sem koma að kosningum hér á landi.