Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist vera reið yfir karlrembunni á Alþingi á Twitter-síðu sinni í dag en tillögu um að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, myndi ekki sitja áfram sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar var vísað frá á fundi nefndarinnar í morgun.
Í dag var fyrsti fundur umhverfis- og samgöngunefndar eftir að Bergþór tók sæti á Alþingi á ný í síðustu viku eftir að hafa tekið sér leyfi frá störfum eftir Klausturmálið.
Rósa Björk segir á Twitter að „klaustursformaðurinn“ hafi mætt án nokkurs fyrirvara. „Við bárum upp tillögu um að kjósa hann í burtu. Meirihluti nefndarinnar með stuðningi tveggja Klaustursþingmanna kaus gegn því ...“ segir hún.
Rosalega er ég reið yfir karlrembunni á Alþingi. Áðan lauk miklum átakafundi umsam-nefndar þingsins. Klaustursformaðurinn mætti án nokkurs fyrirvara. Við bárum upp tillögu um að kjósa hann í burtu. Meirihluti nefndarinnar með stuðningi tveggja Klaustursþingmanna kaus gegn því..
— Rósa Björk B (@RosaBjorkB) January 29, 2019
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu með stuðningi Hönnu Katrínar Friðriksson, formanns þingflokks Viðreisnar, og Rósu Bjarkar um að greidd yrðu atkvæði um formann nefndarinnar en þeirri tillögu var vísað frá af meirihluta nefndarinnar.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram frávísunartillöguna en að sögn Helgu Völu í samtalið við Vísi í morgun var hún studd af Líneik Önnu Sævarsdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Ara Trausta Guðmundssyni, þingmanni VG, og þeim Bergþóri og Karli Gauta.