Heildarfjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll á eftir að fækka í ár, í fyrsta sinn síðan árið 2009, samkvæmt nýrri farþegaspá Isavia. Spáin gerir ráð fyrir 8,95 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll á þessu ári, tæpri milljón færri en í fyrra. Einnig er gert ráð fyrir fækkun erlendra ferðamanna hér á landi en spáin spáir 55 þúsund færri ferðamönnum í ár en í fyrra.
Spá fækkun ferðamanna í fyrsta sinn frá 2009
Farþegaspáin var kynnt á morgunfundi Isavia á Hilton Nordia hóteli í morgun. Farþegaspáin er yfirleitt kynnt í nóvember en var frestað vegna óvissunnar um framtíð WOW air.
Isavia spái fækkun farþega í fyrsta skipti frá 2009, þegar vaxtarskeið flugvallarins hófst, en skýringin á því er minna framboð flugs en undanfarin ár. Farþegar um Keflavíkurflugvöll voru 9,8 milljónir á síðasta ári, en upphaflegar spár Isavia gerðu ráð fyrir því að þeir yrðu 10,4 milljónir. Í ár er spáð 8,7 prósent fækkun milli ára en búist er við 8,95 milljónum farþegar fari um flugvöllinn í ár.
Skiptifarþegar ennþá stærsti farþegahópurinn
Á árinu 2018 voru farþegar sem fóru um Keflavíkurflugvöll til þess að skipta um flug tæp 40 prósent heildarfarþegafjölda flugvallarins eða samtals 3,8 milljónir. Í ár gerir spáin ráð fyrir mestri fækkun í skiptifarþegum en talið er að þeim muni fækka um 18,7 prósent frá fyrra ári. Í spáinni segir að það skýrist helst af því að áfangastaðir munu að öllum líkindum fækka, sem og tíðni ferða til vissra áfangastaða. Skiptifarþegar verða þó áfram stærsti farþegahópurinn eða alls 3,1 milljón.
Samkvæmt spánni fækkar brottfararfarþegum hins vegar minna. Komu- og brottfararfarþegum á að fjölga yfir sumartímann milli ára. Í júní verði þeir um 4 prósent fleiri en á sama tíma í fyrra, þeim fjölgar um 5,7 prósent í júlí og að lokum um 7,2 prósent í ágúst. Þá gerir farþegaspáin ráð fyrir að komu- og brottfararfarþegum fjölgi í nóvember um 1,7 prósent og í desember um 4,6 prósent.
Isavia spáir því einnig að ferðum Íslendinga um flugvöllinn fari fækkandi eða um 3,3 prósent. Auk þess muni erlendum ferðamönnum fækka um 2,4 prósent og verði því 55 þúsundum færri en þeir voru árið 2018.
„Stærstu fréttirnar í spánni er þó þær að þrátt fyrir mikla óvissu undanfarnar vikur þá er fækkunin ekki mjög mikil og mun árið 2019 verða svipað að stærð og árið 2017 sem talið var mjög gott ár í ferðaþjónustunni,“ segir í farþegaspánni.