„Við festumst stundum í því að hugsa að banki er bara banki. Sem er alls ekki raunin. Maður þarf eiginlega að brjóta niður að bankaþjónusta eru margir mismunandi þjónustuþættir. Það eru íbúðalánin, fyrirtækjalán, greiðsluþjónusta og svo framvegis.
Í vinnunni skoðunum við líka hvern og einn þessara flokka og hverjir eru samkeppnisaðilar á hverjir eru samkeppnisaðilar á hverjum stað fyrir sig. Þá kemur mjög skýrt í ljós þar sem samkeppnin er mikil er álagningin minni. Eins og til dæmis á íbúðalánum þá er ekki marktækur munur á álagningu bankana á Íslandi og á Norðurlöndunum.“
Þetta segir Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman í Svíþjóð sem sat í starfshópnum sem skrifaði Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut annað kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21 á fimmtudag og hægt er að sjá stiklu úr honum hér að neðan:
Á Íslandi hefur skapast samkeppni á íbúðalánamarkaði á undanförnum árum vegna þess að lífeyrissjóðir landsins hafa sótt meira inn á þann markað. Þeir þurfa ekki að greiða ýmsa sértæka skatta sem bankar þurfa að greiða og hafa því getað boðið upp á mun betri kjör. Sem stendur býður Lífeyrissjóður verslunarmanna til að mynda sjóðsfélögum sínum upp á 2,36 prósent verðtryggða breytilega vexti á meðan að Arion banki býður sínum viðskiptavinum upp á 4,22 prósent verðtryggða breytilega vexti. Bankinn býður þó upp á 80 prósent hámarkslán á meðan að lífeyrissjóðurinn býður upp á 70 prósent.
Kristrún Tinna segir að sértækir skattar sem lagðir séu á fjármálafyrirtæki hafi gríðarlega mikil áhrif. „Og auðvitað, eins og með flesta skatta, enda þeir að lokum á neytendum. Þannig að að því marki sem bankarnir eru að keppa við lífeyrissjóði sem bera ekki slíka skatta þá auðvitað myndast ákveðnir skrýtnir hvatar í kerfinu.“
Í viðtalinu ræðir Kristrún Tinna einnig ýmsa aðra anga Hvítbókarinnar og sérstaklega þá umræðu sem sprottið hefur upp um eignarhald ríkisins á bönkunum í kjölfar þess að Hvítbókin var birt í síðasta mánuði. Hún ræðir einnig þær kannanir sem starfshópurinn lét gera um viðhorf almennings til fjármálakerfisins.