Nasdaq AB, sem á og rekur kauphallir á flestum Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum, meðal annars þá íslensku, hefur tilkynnt að félagið muni gera tilboð í öll hlutabréf Oslo Børs VPS Holding ASA, sem á og rekur kauphöllina og viðhangandi verðbréfamiðstöð í Osló. Gangi viðskiptin eftir mun Nasdaq Nordic, sem tilheyrir Nasdaq AB, reka kauphallir í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, í Eystrasaltslöndunum og nú Noregi.
Í fréttatilkynningu frá Nasdaq AB, sem er dótturfélag Nasdaq Inc., kemur fram fram að tilboðið hljóði upp á 152 norskar krónur á hlut auk sex prósent árlegra vaxtagreiðslna þangað til að öllum fyrirvörum tilboðsins hefur verið mætt eða þeim aflétt. Formlegt tilboð verður gert opinbert 4. febrúar næstkomandi.
Stjórn Oslo Børs hefur lýst því yfir að tilboð Nasdaq sé það besta sem sé á borðinu. Þegar hafa 35,11 prósent allra hluthafa félagsins samþykkt það, þar á meðal norsku bankarnir DNB og KLP.
Nasdaq yfirbauð Euronext sem hafði boðið 145 norskrar krónur á hlut.
Hægt er að lesa tilkynningu Nasdaq í heild sinni hér.
Vantar stóran hluta af efnahagslífinu í kauphöllina
Kaupin, verði þau kláruð, gætu opnað ýmsa möguleika fyrir íslensk félög hvað varðar tvískráningar. Arion banki varð í fyrra fyrsta íslenska félagið eftir hrun sem var tvískráð á markað, en bréf þess eru skráð í kauphallir Nasdaq á Íslandi og í Svíþjóð.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, benti á það í viðtali við 21 á Hringbraut í lok nóvember 2018 að Kauphöllin á Íslandi gæti endurspeglað íslenskt efnahagslíf betur. „Að stórum hluta vantar sjávarútveginn þarna inn ennþá. Það vantar orkufyrirtækin. Og af þó nokkrum hluta ferðaþjónustuna líka.“
Í norsku kauphöllinni er að finna félög úr þessum geirum.
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu við Pál hér að neðan.