Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, skoraði á forseta Alþingis á þingfundi í dag að láta prenta spjöld á íslensku sem á stæði #ekkiáokkarþingi, taka mynd af þingmönnum samankomnum þar sem þeir sýni samstöðu og berjist gegn kynferðislegu ofbeldi gegn þingkonum.
Birgir fjallaði um niðurstöður rannsóknar sem gerð var á meðal 80 þingkvenna í 45 löndum sem Evrópuráðið birti í október á síðasta ári en rannsóknin var um kynferðislegt ofbeldi, líkamlegt og andlegt, gagnvart þingkonum. Hann sagði niðurstöðurnar vera sláandi.
„Daglega verða þingkonur í Evrópu fyrir kynferðislegu ofbeldi. Rúmlega 40 prósent af þingkonum í þjóðþingum Evrópu hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni og í 70 prósent tilfella eru gerendurnir karlkyns þingmenn. 50 prósent eða helmingur þingkvenna hefur orðið fyrir kynferðislegum athugasemdum þar sem mikill meginhluti gerenda eru karlkyns þingmenn,“ sagði hann.
Birgir sagði það einnig vera sláandi hversu lágt hlutfall þessara kvenna kæri verknaðinn eða einungis 20 prósent. Í rannsókninni kemur jafnframt fram að afleiðingar þessa fyrir þingkonur eru margvíslegar; kvíði, svefnleysi og ýmis heilsufarsvandamál, auk þess hefur þetta neikvæð áhrif á öll störf þeirra og framgang í stjórnmálum.
„Það er í höndum okkar karlkyns þingmanna að uppræta þessa miklu meinsemd sem viðgengst í öllum þjóðþingum Evrópu, einnig hér á landi,“ sagði Birgir en hann sótti þing Evrópuráðsins í síðustu viku ásamt Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni VG, og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata. Hann segir að á þinginu hafi verið hleypt af stokkunum átaki gegn kynferðislegu ofbeldi í þjóðþingum.
Átakið heitir á ensku „Not in my Parliament“, sem þýða mætti á íslensku „Ekki á okkar þingi“. Birgir sagði að tekin hefði verið mynd af hverjum og einum þingmanni með slíkt spjal og þingmenn beðnir um að dreifa á samfélagsmiðlunum.
Hægt er að sjá færslur á Twitter undir myllumerkinu #notinmyparliament.