Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir í grein sem birtist í Vísbendingu, sem kemur til áskrifenda á morgun, að full ástæða sé til þess fyrir stjórnvöld að ganga lengra en núverandi eigendastefna ríkisins, gagnvart fjármálakerfinu, segir til um.
Hún fjallar í greininni um hvers vegna það sé nauðsynlegt, að hennar mati, að ríkið selji hluti sína í Íslandsbanka og Landsbankanum, sem það á að nær öllu leyti, 100 prósent í Íslandsbanka og 98 prósent í Landsbankanum.
Hún nefnir meðal annars að aukin tæknivæðing í fjármálaþjónustu geti haft mikil áhrif á næstu misserum, og leitt til meiri samkeppni. Því muni fylgja mikil áhætta fyrir ríkissjóð, á meðan hann á jafn stóran hluta fjármálakerfisins og raunin er nú.
„Aukin samkeppni er nú fyrirsjáanleg, t.a.m. á neytendamarkaði, þar sem stofnuð hafa verið minni fjármálafyrirtæki sem styðjast við gervigreind í fjármálalegri ákvarðanatöku og eru í mörgum tilvikum að öllu leyti bundin við netið. Fjártækni mun breyta verulega starfsháttum fjármálageirans ásamt því að lækka kostnað við fjármálaþjónustu og auka aðgengi almennings að henni. Auðséð er að rótgrónir viðskiptabankar um allan heim munu þurfa að tileinka sér nýja tækni hratt og skera jafnframt niður kostnað við að veita þjónustu með hefðbundnum hætti til að haldast samkeppnishæfir. Mikil óvissa er því um hvernig verðmæti eignarhluta ríkisins muni þróast á komandi árum í breyttu samkeppnisumhverfi og erfitt að sjá skynsemi í því að íslenska ríkið taki virkan þátt, sem eigandi, í þeim breytingum sem fyrirséðar eru á fjármálamarkaði.“
Lítið brot af greininni er birt hér. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.