„Maður áttaði sig náttúrulega á því að umræðan er mjög neikvæð og fólk er mjög tortryggið. Það er í rauninni mjög eðlilegt í ljósi þess að það var ákveðið traust sem var brotið þarna fyrir tíu árum síðan. Það sem gerðist var í raun ekki einskorðað við Ísland heldur datt traust á bankakerfum um allan heim niður í því áfalli. En hins vegar hefur bætingin og þróunin á Íslandi verið hægari en það sem við höfum séð í öðrum löndum. Sem endurspeglar kannski í fyrsta lagi það að hrunið hér var miklu dramatískara og hafði miklu meiri bein áhrif á alla Íslendinga.“
Þetta sagði Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman í Svíþjóð sem sat í starfshópnum sem skrifaði Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut á fimmtudag.
Hægt er að sjá stiklu úr viðtalinu hér að neðan:
Þar ræddi hún meðal annars um rannsóknir sem unnar voru fyrir Hvítbókarhópinn sem sýndu að 61,2 prósent landsmanna er jákvæður fyrir því að ríkið eigi banka og að einungis 16 prósent treysti bankakerfinu en 57 prósent treysta því alls ekki.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom einnig fram að þau þrjú orð sem flestum Íslendingum dettur í hug til að lýsa bankakerfinu á Íslandi eru háir vextir/dýrt/okur, glæpastarfsemi/spilling og græðgi.
Kristrún Tinna sagði að það hafi komið á óvart hversu sterk orð hafi verið notuð. „Það er mjög erfitt að reka banka þar sem það er svona ofboðslega mikið vantraust þannig að ég held að það undirstriki hvað það er mikilvægt að eiga samtal um þetta. Og jafnvel taka upp kynningarmyndbönd til að hjálpa almenningi að fá efni sem er á svona auðveldu formi til að melta.
Við erum alveg með hóflegar væntingar um það að fólk sé ekki að fara að lesa þessar 300 blaðsíður [sem Hvítbókin er] og ég skil það bara mjög vel, en ég held samt að þetta séu málefni sem eigi mjög mikið erindi við almenning. Maður finnur það.“
Hún segist hafa starfað mikið erlendis á undanförnum árum og oft talað um að á Íslandi sé fólki treyst þar til að sönnuð sé á það sekt eða það brýtur gegn traustinu á annan hátt. „ Í stórum hluta heimsins er því öfugt farið. Þú treystir engum fyrr en þú ert búinn að kynnast honum persónulega og byggja upp traust og orðspor. Og ég upplifi að það sé svolítill viðsnúningur [á Íslandi], sérstaklega eftir hrunið. Skiljanlega. En ég held að við verðum að reyna að vinna okkur í sameiningu út úr því og leyfa fólki að eiga samtalið og hlusta á hvort annað.“
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan.