Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa auglýst tillögu að breyttu hverfisskipulagi í Ártúnsholti, Árbæ og Selási. Borgin hyggst heimila húseigendum að gera tæplega 2000 íbúðir í þessum þremur hverfum. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir að á næstu misserum verði slíkar breytingar kynntar í níu öðrum borgarhlutum. Með þeim gæti smáíbúðum fjölgað mikið í Reykjavík, ekki síst í grónum hverfum með bílskúrum og stórum lóðum. Frá þessu greint í Morgunblaðinu í dag.
Ódýrari íbúðir á dýrari svæðum
Ævar Harðarson, verkefnisstjóri hverfisskipulags hjá Reykjavíkurborg, segir í samtali við Morgunblaðið að með breytingunum verði hægt að bjóða ódýrari íbúðir en á dýrari lóðum miðsvæðis. „Það er verið að setja íbúðir á svæði sem eru þegar byggð. Sumar aukaíbúðirnar þarf ekki að byggja heldur þarf aðeins að setja upp létta innveggi,“ segir Ævar.
Ævar Harðarson, segir að mest fjölgun íbúða verði í svokölluðum aukaíbúðum. Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa lagt til að heimilaðar verði um 1.730 íbúðir á Ártúnsholti, Árbæ og Selási. Þá eru hugmyndir um að Bjarg fái lóðir undir 200 til 220 íbúðir og aldraðir byggja nú 60 íbúðir, ásamt mögulegum íbúðum á þróunarsvæðum. „Þetta eru 50 fermetra íbúðir sem má innrétta, t.d. með því að byggja við, skipta upp eldra rými eða breyta lítið notuðum bílskúrum í litlar íbúðir. Þessar aukaíbúðir eru hugsaðar fyrir fjölskyldumeðlimi eða til útleigu. Óheimilt er að selja þær frá aðalíbúð enda má sameina þær aðalíbúð aftur ef eigendur óska þess. Í skilmálum stendur að aðalíbúð og aukaíbúð skuli tilheyra sama matshluta og vera í einni eigu,“ segir Ævar.
Misjafnt milli hverfa
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir í samtali við Morgunblaðið að á næstu misserum verði álíka breytingar kynntar í níu öðrum borgarhlutum en að þær verði misjafnar eftir hverfum. Sigurborg Ósk leggur áherslu á að það sé í höndum íbúa að taka ákvörðun um slíkar framkvæmdir. Hún telur það líklegt að margir muni sjá sér hag í slíkum breytingum en að þær muni gerast á löngum tíma. Hún segir fjölskyldumynstrið vera að breytast og víða orðið rúmt um íbúa í sérbýli.
„Við erum líka að gefa íbúunum færi á að hafa leiguíbúðir innan síns húsnæðis sem geta þá verið tekjuaukandi og aukið verðmæti eignarinnar. Það er til dæmis íbúðarhúsnæði í mörgum bílskúrum í dag, þótt slíkt sé ekki löglegt. Þetta snýst því líka um að stíga skrefið í átt að raunveruleikanum. Þessar breytingar verða gerðar í öllum hverfum borgarinnar. Það er verið að halda í byggðamynstrið en auka nýtingarmöguleika,“ segir hún.
Fjölgun íbúða með umræddum heimildum verður þó mismikil milli borgarhluta, þar sem nýtingarhlutfallið sé misjafnt milli hverfa. Þá verði veittar heimildir fyrir viðbyggingum á lóðum þar sem nýtingarhlutfall er lágt en til dæmis er nýtingarhlutfallið hátt í miðborginni og Vesturbænum. Borgin skoðar þú að heimila að byggst sé við lóðum við fjölbýlishús til dæmis við Birkimel í Vesturbænum. Auk þess komi til greina að heimila aukahæðir ofan á fjölbýlishús sem eru án lyftu, til dæmis þriggja til fjögurra hæða fjölbýlishúsum í Hraunbænum.
Sigurborg Ósk segir jafnframt að samhliða breytingunum verði hjólastígar gerðir, skapað gönguvænna umhverfi, almenningssamgöngur efldar og komið fyrir stæðum í borgarlandi fyrir deilibíla. „Aðalmarkmiðið er að skapa sjálfbær hverfi í borginni. Það gerum viðmeðal annars með því að fjölga hjólastígum og grenndarstöðvum og styrkja verslun og þjónustu í hverfunum. Stóra málið er að sjálfsögðu fjölgun íbúða. Það er gert með því að gefa húseigendum meira frelsi til að breyta og byggja við eigið húsnæði,“ segir Sigurborg Ósk.