Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærsti flokkur landsins í þjóðarpúlsi Gallups og fengi 23,4 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú, en Sósíalistaflokkurinn mælist með yfir 5 prósent fylgi, og næði því inn þingmönnum, ef hann fengi stuðning í kosningum í samræmi við stöðuna nú.
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur aukist og nú segjast 49 prósent styðja hana, en samanlagt fylgi stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks (23,4 prósent), Vinstri grænna (11,3 prósent) og Framsóknarflokks (8,8 prósent), er þó ekki nema 43,5 prósent. Stjórnarandstöðuflokkarnir mælast hins vegar með 51,4 prósent fylgi.
Könnunin var gerð dagana 7.-31. janúar 2019, en greint var frá könnuninni á vef RÚV. Heildarúrtaksstærð var 4.241 og þátttökuhlutfall var 54,4%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,9-1,9%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.
Viðreisn mælist stærri en Framsóknarflokkurinn, og er nú með 9,1 prósent fylgi. Samfylkingin mælist með 19,1 prósent, Píratar 12,7 prósent, Miðflokkurinn 6,5 prósent og Sósílistaflokkurinn 5,3 prósent.
Flokkur fólksins næði ekki inn á þing, miðað við stöðu mála nú, en hann mælist með 3,7 prósent fylgi.