Bill Franke, stærsti eigandi Indigo Partners og stjórnandi félagsins, sem á enn í viðræðum um kaup á 49 prósent hlut í WOW air, segir í viðtali við CNBC að félagið sæi tækifæri hjá WOW air, enda myndi félagið ekki fjárfesta ef svo væri ekki.
Greint var frá því í nóvember, að samkomulag um 75 milljóna dala fjárfestingu, eða sem nemur um 9 milljörðum króna, á 49 prósent hlut í flugfélaginu WOW air, væri á borðinu, en að uppfylltum skilyrðum.
Viðræður standa enn fyrir um viðskiptin, en Skúli Mogensen er eigandi og forstjóri WOW air.
Nú þegar hefur verið gripið til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða hjá WOW air, og hefur verið haft eftir Skúla að nauðsynlegt hafi verið að draga saman seglin, og komast aftur á þann stað þar sem WOW air gekk vel.
WOW air sagði upp 111 starfsmönnum í desember, og fækkaði í flugflota úr 20 í 11. Uppsagnirnar náðu til 350 starfsmanna alls, með verktökum.
Í viðtali við RÚV sagði hann að WOW air hefði horfið frá fyrri stefnu, og færst of mikið í fang, og það hefði reynst honum og félaginu dýr lexía, sem þyrfti að draga réttan lærdóm af.
Haft er eftir Franke í umfjöllun CNBC að lággjaldaflugfélög hafi mörg hver gengið í gegnum mikla erfiðleika, með því að reyna að fljúga langar leiðir. „Við munum reyna að gera það rétta í stöðunni,“ segir Franke.
Tap ársins 2017 hjá WOW air, eftir tekjuskatt, var 22 milljónir dala, eða um 2,7 milljarðar íslenskra króna, miðað við 35,5 milljónir Bandaríkjadala, 4,5 milljarða íslenskra króna, hagnað árið áður.