Tæknirisinn Apple er sagður vera með efnisveituna Netflix í sigtinu fyrir mögulega yfirtöku. Apple situr á fúlgum fjár eftir mikinn vöxt fyrirtækisins á undanförnum áratug, en margt bendir þó til þess að nú sé farið að hægja á miklum vexti fyrirtækisins.
Í umfjöllun Bloomberg segir að Apple sé nú með 130 milljarða Bandaríkjdala á lausu til að þess að nýta til viðskipta, en þrátt fyrir að það hafi hægt á miklum hagnaði fyrirtækisins, þá er ekki hægt að segja annað en að staða fyrirtækisins sé ennþá sterk. Fyrirtækið hefur styrkt stöðu sína um 45 milljarða Bandaríkjadala á hverju ári, eftir að greiddur hefur verið út arður.
Laust fé frá rekstri er ríflega 230 milljarðar Bandaríkjadala, en stór hluti þeirrar fjárhæðar er geymdur í ríkisbréfum og öðru eignum erlendis.
Markaðsvirði Netflix er nú 152 milljarðar Bandaríkjadala, en félagið hefur farið mikla sigurför á fjölmiðlamarkaði á undanförnum fimm árum, og vaxið mikið. Notendur eru nú 137 milljónir á heimsvísu.
Apple hefur hrapað nokkuð í verði á undanförnum mánuðum, eftir að hafa farið yfir 1.000 milljarða Bandaríkjadala í fyrra, eða sem nemur um 120 þúsund milljarða króna. Nú er markaðsvirði félagsins 805 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 96 þúsund milljörðum króna.
Óhætt er að segja að Íslendingar hafi tekið Netflix opnum örmum eftir að félagið hóf formlega að bjóða upp á þjónustu sína á Íslandi. Samkvæmt könnun MMR árið 2017, var yfir helmingur heimila í landinu með áskrift af efnisveitunni.