Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra upplýsti formenn allra ríkisstjórnarflokkanna um yfirlýsingu sem hann sendi frá sér á Twitter í gær, þar sem hann lýsti því yfir að að Ísland styddi Juan Guadió sem forseta Venesúela til bráðabirgða. Þetta kemur fram í skriflegu svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Þar segir að yfirlýsingin hafi komið í kjölfar samráðs við önnur Norðurlönd og sé sambærileg yfirlýsingu sænskra og finnska stjórnvalda. „ Íslensk stjórnvöld lýsa áhyggjum af stöðu þingsins í Venesúela og stöðu mannréttinda. Með yfirlýsingunni er verið að ítreka mikilvægi þess að lýðræðislegar kosningar fari fram sem fyrst og lýsa yfir stuðningi við að forseti réttkjörins þjóðþings verði forseti landsins til bráðabirgða. Ísland gengur með þessu skemur en mörg ríki sem formlega viðurkenna Juan Guaidó sem forseta, eins og til dæmis Danmörk. Í yfirlýsingunni felst enginn stuðningur við hótanir annarra ríkja um hernaðaríhlutun í Venesúela eða önnur slík inngrip,“ segir forsætisráðherra.
Hún segir enn fremur að utanríkisráðherra hafi upplýst sig, Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins um yfirlýsinguna áður en að hún var send út í gær.
Auk þess hafi Guðlaugur Þór greint sér frá því að hann hefði upplýst utanríkismálanefnd um yfirlýsinguna með tölvuskeyti síðdegis í gær og rætt við fulltrúa í nefndinni símleiðis í kjölfarið. „Utanríkismálanefnd var ennfremur upplýst með minnisblaði dagsett 25. janúar sl. um stöðuna í Venesúela og viðbrögð umheimsins við henni.“
Iceland supports @jguaido as the Interim President of Venezuela. Free and fair elections should now be called and the will of the people respected.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) February 4, 2019
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, sagði við RÚV fyrr í dag að Guðlaugur Þór hefði ekkert samráð haft við nefndina áður en hann tilkynnti opinberlega um stuðning Íslands við leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela. Utanríkismálanefnd hafi því kallað Guðlaug Þór á fund nefndarinnar á morgun.
Viðmælendur Kjarnans segja að nefndin hafi fengið minnisblað frá utanríkisráðherra 25. janúar um stöðuna í Venesúela og tölvupóst um klukkan hálf sex síðdegis í gær. Guðlaugur Þór sendi svo frá sér yfirlýsinguna á Twitter klukkan tvær mínútur í sjö síðdegis í gær og mætti nokkrum mínútum síðar í beina útsendingu í fréttum RÚV.
Gegn Maduro
Venesúela er nú að upplifa efnahagshrun, en tæplega 32 milljónir manna búa í landinu. Í nýlegri umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, frá 25. janúar síðastliðnum, segir að reiknað sé með því að hrun efnahags Venesúela eigi eftir að halda áfram á þessu ári og samdráttur verða í landsframleiðslu.
Frá árinu 2013 hefur samdráttur í landsframleiðslu verið um 50 prósent, segir í umfjöllun AGS.
Nicolás Maduro hefur verið forseti í Venesúela síðan 2013, en hann var þar á undan utanríkisráðherra frá árinu 2006. Hann tók við af Hugo Chavez þegar hann lést, 5. mars 2013.
Fleiri þjóðir en Ísland hafa sett fram opinberan stuðning við Guadió, þar á meðal Bandaríkin, sem hafa lýst því yfir að þau telji ekki forsvaranlegt að vera í pólitísku sambandi við Maduro, á meðan hann er með valdaþræðina í hendi sér sem forseti. Bandaríkin hafa þegar gripið til efnahagsþvingana gagnvart Venesúela.
Margar stærstu þjóðir Evrópu hafa einnig gripið til þess, að lýsa yfir stuðningi við Guadió. Maduro hefur hins vegar enn stuðning frá ríkjum eins og Rússlandi, Kína, Kúbu, Tyrklandi, N-Kóreu, Sýrlandi, Íran og Bólivíu.