Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmenn Pírata, stilltu sér upp með „Fokk ofbeldi“ húfur, við hlið Bergþórs Ólasonar, þingmanni Miðflokksins, á Alþingi í dag. Bergþór er einn sex þingmanna sem sat á Klaustri, og talaði þar með niðrandi hætti um samstarfsfólk á þingi, ekki síst konur.
Bergþór hafði sig einna mest í frammi, og hefur hann opinberlega beðist afsökunar á framkomu sinni. Hann og Gunnar Bragi Sveinsson, sem einnig hafði sig einna mest frammi á Klaustur bar, snéru aftur á þing, og ætla sér að halda áfram þingstörfum.
Þeir sex þingmenn sem sátu á Klaustur bar voru auk Bergþórs og Gunnars Braga, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, Anna Kolbrún Árnadóttir, og síðan Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, en Bergþór og Gunnar Bragi voru þeir sem létu ljótustu orðin falla. Meðal annars var Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kölluð „helvítis tík“ en hún sagðist líta á framgöngu Klaustursþingmanna sem ofbeldi.
Fokk ofbeldi húfurnar eru hannaðar og framleiddar fyrir UN Women, til að vekja á athygli á ofbeldi gagnvart stúlkum og konum.