Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra ekkert samráð hafa haft við nefndina áður en hann tilkynnti opinberlega um stuðning Íslands við leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela. Utanríkismálanefnd hefur því kallað Guðlaug Þór á fund nefndarinnar á morgun. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Hafa kallað eftir fundi með Guðlaugi Þór
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sendi út yfirlýsingu í gær á Twitter um að Ísland styðji Juan Gauidó sem forseta Venesúela, en ekki Maduro. Guðlaugur Þór sagði jafnframt í fréttum RÚV í gærkvöld að hann vonaðist eftir því að kosið yrði í Venesúela sem fyrst.
Rósa Björk, segir í samtali við Rúv, að utanríkismálanefnd hafi fengið minnisblað í fyrradag en ekki um yfirlýsinguna sjálfa og tölvupóst undir kvöld í gær. „Ég er mikil talsmanneskja þess og það er skýrt í þingsköpum að það þurfi að vera skýrt samráð við utanríkismálanefnd í stórum utanríkismálum,“ segir Rósa Björk. Hún segist jafnframt styðja það að haldnar verði lýðræðislegar kosningar í Venesúela sem fyrst.
Rósa Björk segir að það sé ýmisleg sem þurfi að útskýra nánar og fara yfir. „Þess vegna höfum við kallað eftir ráðherra á okkar fund á morgun í utanríkismálanefnd og hann hefur tekið vel í það. Þar munum við fara yfir þetta mál og þessa yfirlýsingu og hvað hún í raun og veru inniber.“