Samtök iðnaðarins segja að nú séu kjöraðstæður að skapast í hagkerfinu fyrir hið opinbera til að fara í frekari innviðauppbyggingu.
Þetta kemur fram í umfjöllun á vef SI en þar er ný þjóðhagsspá Seðlabanka Íslands gerð að umtalsefni. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að það hægi verulega á gangi mála í efnahagsmálum þjóðarinnar á þessu ári, og að hagvöxtur verið 1,8 prósent sem 0,9 prósentustigum lægra en fyrri spá gerði ráð fyrir.
Í umfjöllun SI segir að uppsöfnuð þörf á fjárfestingu í vegakerfinu sé á bilinu 350 til 400 milljarðar króna. Vitnað er til umfjöllunar meirihluta í samgöngu- og umhverfisnefnd Alþingis, þar sem segir að uppsafnaður vandi sé mikill.
„Réttilega er bent á í álitinu að uppsafnaður vandi er mikill og brýnt að framkvæmdahraði yrði meiri en áætlað er í samgönguáætlun. Bent hefur verið á að Ísland er strjálbýlt og vegakerfið umfangsmikið miðað við fólksfjölda, og uppbygging þess hefur alla tíð verið á eftir nágrannalöndunum. Fjárfestingarþörfin í heild er á milli 350–400 milljarðar kr.,“ segir í umfjöllun SI.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, benti á fyrir skömmu að hið opinbera verði að nýta það svigrúm sem skapist „þegar fjárfesting atvinnuveganna dragist saman og hægist á gangi hagkerfisins og hafa beri í huga að mikil uppsöfnuð þörf sé fyrir fjárfestingu í innviðum eftir fjársvelti síðustu tíu ár.“
Hann segir að spáin sé heldur varfærin og ætla megi að fjárfestingin á árunum 2020-2022 verði jafnvel umfram þá áætlun sem kom fram á þinginu.