„Ég ætla að vera vongóð þangað til að annað kemur í ljós. Þessi ríkisstjórn hefur sagt að það þurfi að breyta skattkerfinu til þess að létta sköttum af þeim lægst launuðu. Þannig að það er skref í áttina.“
Þetta segir Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut klukkan 21:00 í kvöld. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
ASÍ lagði nýverið fram umfangsmiklar skattatillögur sem innlegg í kjaraviðræður. Í þeim felst að sett verði á fjögur skattþrep, lagður verði á hátekjuskattur, tekinn verði upp að nýju auðlegðarskattur og skattaeftirlit aukið verulega til að fjármagna þessar tillögur.
Drífa segist ánægð með að ASÍ sé búið að setja út sínar skattatillögur en að hún hafi ekki séð hverjar skattatillögur stjórnvalda séu.„En ég reikna með að það sé hugmyndafræðilegur ágreiningur innan stjórnvalda, innan ríkisstjórnarinnar.“
Í aðdraganda kosninganna 2016 setti Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og núverandi forsætisráðherra, eftirfarandi færslu á Twitter.
Aukið gagnsæi og þrepaskipt skattkerfi er lykill að auknum jöfnuði. Leyndin gerir fólki kleift að velja sér eigin skattprósentu!
— Katrín Jakobsdóttir (@katrinjak) April 26, 2016
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, hefur hins vegar gagnrýnt tillögur ASÍ um þrepaskipt skattkerfi og sagt að þær muni leiða til þess að skattbyrði hækki á meðaltekjur og jaðarskattar aukist. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá yfirlýstu stefnu í skattamálum að lækka skatta og einfalda skattkerfið.
Drífa segir að Bjarni sé að lesa rangt út úr tillögum ASÍ. „Við erum ekki að leggja til að millitekjuhópurinn greiði skattalækkanir fyrir lágtekjuhópinn heldur viljum við vernda millitekjuhópinn líka. Það náttúrulega kostar peningar. Það að breyta skattkerfinu, þá erum við að fara að hreyfa við tug milljörðum. En við hins vegar bendum líka á það að ríkisstjórnin hefur afsalað sér mikilvægum tekjustofnum síðustu ár. Auðlegðarskattinum, með þvi að afnema milliþrep á skattinum. það eru matarholur sem hægt er að finna.“
Drífa nefnir einnig auðlindagjöld, ekki einungis á sjávarútveg líkt og verið hefur heldur líka á ferðaþjónustu. „Við erum ekki endilega að tala út frá þeirri stöðu sem er í dag varðandi tekjuöflun, heldur eru leiðir til frekari tekjuöflunar.“