Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, munu hittast á fundi í Víetnam, sem fram fer 27. og 28. febrúar næstkomandi. Trump sagði í ræðu sinni að hann hefði komið í veg fyrir stríð við Norður-Kóreu, og að það væri honum að þakka að kjarnorkuvopnatilraunir Norður-Kóreu heyrðu sögunni til.
Í ræðunni sagði hann að efnahagur Bandaríkjanna væri í miklum blóma þessi misserin, og að honum hefði tekist að leysa krafta frelsis úr læðingi á nýjan leik. Hann lofaði því jafnframt að hann myndi gera allt sem í hans valdi stæði til að hindra það að Bandaríkin yrðu sósíalisma að bráð. „Það mun aldrei gerast,“ sagði Trump.
Hann lofaði því jafnframt að hann myndi koma viljanum sínum í gegnum þingið, um að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Hann sagði rannsóknir sem í gangi væru innan Bandaríkjanna, og vitnaði þar til rannsókna sem beinast meðal annars að forsetaframboði hans og afskiptum Rússa af kosningunum 2016, væru „fáranlegar“ og þær ættu ekki að eiga sér stað.