Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, segir að meirihluti Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, sé að láta stjórnarandstöðuna gjalda fyrir Klaustursmálið og sérstaklega framferði Miðflokksmanna, með því taka yfir formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd, sem Bergþór Ólason hefur gengt.
Í færslu á Facebook, í tilefni af mótmælum Þórhildar Sunnu og Björns Levís Gunnarssonar, félaga hennar í þingflokki Pírata, segir hún að henni hafi ofboðið framganga þingmeirihlutans. Hún og Björn Léví voru gagnrýnd af sitjandi forseta Alþingis, fyrir að standa með „Fokk ofbeldi“ húfur við hlið Bergþórs þegar hann flutti ræðu á Alþingi í gær.
Færsla Þórhildar Sunnu fer hér á eftir í heild sinni:
„Í þrjár vikur hafa störf umhverfis og samgöngunefndar verið í uppnámi vegna afstöðuleysis meirihlutans gagnvart formennsku Bergþórs Ólafssonar í nefndinni. Stjórnarmeirihlutinn hefur ekki þorað að taka afstöðu í málinu í allan þennan tíma þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir minnihlutans til þess að finna ásættanlega lausn í málinu. Nú hefur meirihlutinn tekið ákvörðun um að hirða eitt þriggja formannembætta minnihlutans af honum til sín, í hendur skuggasamgöngumálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Jóns Gunnarssonar. Hér er verið að refsa stjórnarandstöðunni fyrir gjörðir Miðflokksmanna.
Á sama tíma fær Brynjar Níelsson að spúa kvennfyrirlitningartali um víðan völl án viðnáms frá stjórnarmeirihlutanum. Katrín Jakobsdóttir, jafnréttismálaráðherra, samþykkir með þögn sinni að það sé í lagi að Brynjar Níelsson væni konurnar sem hafa sakað Jón Baldvin Hannibalsson um kynferðisbrot, um opinbera smánun. Að þær vilji bara meiða hann. Að þær fari offorsi. Brynjar smættar brotin gegn þessum hugrökku konum, gerir lítið úr þeim með þöglu samþykki stjórnarmeirihlutans.
Eins fær Brynjar Níelsson að ráðast gegn þolanda vændis í viðtölum við fjölmiðla og reynir að kenna henni lexíur í sjálfsábyrgð.
Við skulum ekki gleyma því að þetta er sami maður og sagði sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að til væru verri brot gegn börnun en þau sem Róbert Downey framdi gegn Nínu Rún Bergsdóttur, Höllu Ólöfu Jónsdóttur, Glódísi Töru og Önnu Katrínu Snorradóttur.
Þetta er sami maður og hneykslaðist opinberlega á því að Hjalti Sigurjón Hauksson hefði misst vinnu sem rútubílstjóri þegar upp komst að hann hefði fengið lengsta dóm sem dæmdur hefur verið á Íslandi fyrir kynferðisbrot gegn barni.
Þetta er sami maður og sá sem formaður stjórnskipunar- og efitrlitsnefndar, hélt því fram að þau sem kröfðust upplýsinga um uppreist æru, þ.á.m. Bergur Þór Ingólfsson, vildu bara berja á þeim sem veitt höfðu barnaníðingunum Róberti Downey og Hjalta Sigurjóni Haukssyni meðmæli.
Þetta þykir stjórnarmeirihlutanum í lagi. Þetta þykir þingmönnum VG, sem að eigin sögn hafa femínisma sem eina af sínum grunnstoðum í lagi.
Menn sem tala ógeðslega um konur. Tala um þær sem skrokka, sem hluti, sem húrrrandi klikkaðar kuntur, sem apaketti, sem vændiskonur sem þurfi bara að bera ábyrgð á sjálfum sér, sem konur sem vilja bara meiða karla sem brutu á þeim kynferðislega, fá að gera það óáreittir og án afleiðinga frá stjórnarmeirihlutanum.
Þriggja vikna umræður um hvort Bergþór ætti að víkja úr formannsstóli höfðu engu skilað í gær vegna þess að stjórnarmeirihlutinn var ekki tilbúinn að fella hann úr stóli. Var ekki tilbúinn að taka afstöðu gegn framkomu Bergþórs.
Í gær hafði sú staða ekki breyst. Ég fyrir mitt leyti, hafði reynt mitt besta til að fá stjórnarmeirihlutann í lið með okkur en fékk nóg af þessari viðvarandi meðvirkni með ofbeldisseggjum á Alþingi.
Á sama tíma beita þeir Miðflokksmenn fyrir sig Persónuvernd og dómstólum í vígaleik sínum gegn uppljóstraranum Báru, sem opinberaði innræti þeirra fyrir alþjóð. Á sama tíma lætur ríkissaksóknari það eiga sig að rannsaka spillingargort þeirra Gunnars Braga og Sigmundar Davíðs.
Nú er komið í ljós að næstbesta staðan fyrir Miðflokkinn var valin af stjórnarmeirihlutanaum sem ákveður að refsa okkur í stjórnarandstöðunni með því að setja sinn mann í formannstól nefndarinnar. Meirihlutinn notfærar sér óþol okkar fyrir Bergþóri Ólafssyni í formannsstóli með því að taka til sín stólinn og setur þangað Jón Gunnarsson, skuggasamgöngumálaráðherra Íslands.
Þannig græðir stjórnarmeirihlutinn á Klaustursmálinu. Þeim finnst líka ekkert mál að Bergþór sitji áfram í stjórn nefndarinnar og geti þannig stýrt fundum nefndarinnar forfallist Jón eða Ari Trausti. Ekkert mál.
Mér ofbauð og við Björn gripum til okkar ráða. Lái okkur hver sem vill.“