Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2018 nam 19,3 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 19,8 milljarða króna á árinu 2017. Lagt verður fyrir aðalfund bankans að greiða 9,9 milljarða króna í arð vegna ársins 2018 til hluthafa, þ.e. ríkisins, sem á ríflega 98 prósent hlutafjár í bankanum.
Arðgreiðslan nemur um 52 prósent af hagnaði ársins. Kostnaðarhlutfall bankans (hlutfall rekstrarkostnaðar af tekjum) var 45,5 prósent.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum vegna uppgjörs ársins 2018.
Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 8,2 á árinu 2018 sem er sama arðsemi og árið 2017. Hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 4,5 milljarða króna milli ára og námu 40,8 milljörðum króna árið 2018. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 8,2 milljörðum króna og stóðu nokkurn vegin í stað frá fyrra ári.
„Við erum þakklát því mikla trausti sem viðskiptavinir bankans sýna okkur. Markaðshlutdeild Landsbankans hefur aukist jafnt og þétt og er sú mesta á landinu, fimmta árið í röð. Hlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði mælist nú um 38% og 34% á fyrirtækjamarkaði. Ánægja með þjónustuna mælist hærri en fyrr, traust til bankans hefur vaxið og það er einkar ánægjulegt að kannanir sýna að viðskiptavinir Landsbankans eru líklegri til að mæla með sínum banka en viðskiptavinir annarra banka. Vöruþróun, breytingar og nýsköpun er fastur og nauðsynlegur þáttur í vexti og rekstri bankans og bættri þjónustu við viðskiptavini. Árið 2018 einkenndist af fjölmörgum spennandi nýjungum í stafrænni þjónustu og líklega er óhætt að segja að aldrei hafi orðið jafn miklar breytingar á þjónustu bankans á jafn stuttum tíma. Framboð bankans á nýjum lausnum byggir á traustum grunni þar sem öflug tæknigeta, framúrskarandi starfsfólk, sterk markaðshlutdeild, fjölbreyttar þjónustuleiðir og áhersla á að efla og viðhalda persónulegum viðskiptasamböndum eru lykilþættir,“ segir Lilja Björk Eiríksdóttir, bankastjóri, í fréttatilkynningu.
Aðrar rekstrartekjur námu 3,6 milljörðum króna og lækkuðu um 49 prósent á milli ára. Óhagstæðar aðstæður á verðbréfamörkuðum eru helsta skýring lækkunarinnar.
Jákvæð virðisbreyting ársins nam 1,4 milljarði króna samanborið við jákvæða virðisbreytingu upp á 1,8 milljarð króna árið 2017. Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,7% en var 2,5% árið áður.
Rekstrarkostnaður var 23,9 milljarðar króna og hækkar um 0,4% á milli ára. Þar af voru laun og launatengd gjöld 14,6 milljarðar króna, samanborið við 14,1 milljarð króna árið áður sem er hækkun um 3,8% á milli ára. Annar rekstrarkostnaður lækkar um 4,5%.
Hagnaður fyrir skatta á árinu 2018 var 30 milljarðar króna samanborið við 29,7 milljarða króna árið 2017. Reikn¬aðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 11,4 milljarðar króna árið 2018 samanborið við 10,6 milljarða króna árið 2017.
Heildareignir Landsbankans jukust um 133,2 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2018 alls 1.326 milljörðum króna. Útlán jukust um 15,0% milli ára, eða um 138,9 milljarða króna. Útlán jukust bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Vanskilahlutfall útlána heldur áfram að lækka og var 0,8% í lok árs 2018, samanborið við 0,9% í lok árs 2017.
Í árslok 2018 voru innlán frá viðskiptavinum 693 milljarðar króna, samanborið við 605 milljarða króna í árslok 2017.
Eigið fé Landsbankans í árslok 2018 var 239,6 milljarðar króna samanborið við 246,1 milljarð króna í árslok 2017. Á árinu 2018 greiddi Landsbankinn 24,8 milljarða króna í arð til hluthafa. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2018 var 24,9%, samanborið við 26,7% í árslok 2017. Eiginfjárgrunnur Landsbankans skal vera að lágmarki 20,5%, samkvæmt heildarkröfum Fjármálaeftirlitsins.