Hagnaður Marel á fjórða ársfjórðungi 2018 nam 38 milljónum evra, eða sem samsvarar 5,2 milljörðum íslenskra króna, sem er aukning um 12,4 prósent frá sama tíma árið 2017 þegar hagnaðurinn nam 33,8 milljónum evra eða sem nemur 4,7 milljörðum króna.
Pantanir félagsins námu 296 milljónum evra, sem var aukning frá 281,5 milljónum evra árið áður og tekjurnar námu 330,8 milljónum evra.
Gengi hlutabréfa félagsins hækkaði um 6,2 prósent í dag í þriggja milljarða króna viðskiptum, og markaðsvirðið hækkaði um 18 milljarða, og er nú um 295 milljarðar króna.
Hagnaður ársins 2018 nam í heildina 122,5 milljónum evra, um 16,8 milljörðum króna, sem er aukning um 26,4 prósent frá árinu áður þegar það var 96,9 milljónir evra, eða um 13,5 milljörðum króna. Í krónum nam hagnaður ársins 2018 því um 16,8 milljörðum króna.
„Við erum ánægð með niðurstöðu fjórða ársfjórðungs og ársins í heild. Í fjórða ársfjórðungi skilum við mettekjum, 331 milljón evra, sem er 12% aukning samanborið við sterkan fjórða ársfjórðung árið á undan. Tekjur á árinu jukust um 15%, þar af er innri vöxtur 12,5%. Marel hefur einn mesta fjölda uppsettra vinnslukerfa í heiminum. Sá grunnur og aukin áhersla á þjónustu við viðskiptavini skila stöðugum viðhaldstekjum sem nema 35% af heildartekjum félagsins. EBIT framlegð nam 14,6% á fjórðungnum, líkt og á árinu,“ segir Árni Oddur Þórðarson í tilkynningu vegna uppgjörsins.
London útaf borðinu
Áform um skráningu hlutabréfa Marel í alþjóðlegri kauphöll ganga samkvæmt áætlun, segir í tilkynningu. Á aðalfundi félagsins 2018 tilkynnti Ásthildur Margrét Otharsdóttir stjórnarformaður Marel, að STJ Advisors, óháðir alþjóðlegir ráðgjafar, hefðu verið fengnir til að greina mögulega skráningarkosti fyrir félagið.
„Unnið er að því að fá tvo alþjóðlega fjárfestingabanka til ráðgjafar við skráningarferlið. Um leið og ákvörðun um kauphöll liggur fyrir, mun Marel leita ráðgjafar hjá þarlendum fjármálastofnunum. Stjórn Marel telur, byggt á ráðgjöf stjórnenda og STJ Advisors, að tvíhlíða skráning í alþjóðlegri kauphöll sé til hagsbóta fyrir bæði núverandi og verðandi hluthafa Marel. Aðrir skráningarkostir sem voru til skoðunar voru að vera áfram skráð félag á Íslandi eingöngu eða afskrá félagið á Íslandi og skrá það að fullu erlendis. Hluti af greiningarferlinu var ítarleg upplýsingabeiðni sem var send á fimm alþjóðlegar kauphallir. Í framhaldi voru skráningarkostir þrengdir niður í þrjár kauphallir, Amsterdam, Kaupmannahöfn, og London. Valið stendur nú fyrst og fremst á milli Euronext í Amsterdam og Nasdaq í Kaupmannahöfn,“ segir í tilkynningu.