Vörukarfa, saman sett af algengum matvörum, er mun dýrari í Reykjavík en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna, samkvæmt niðurstöðum nýrrar verðkönnunar Verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands. Vörukarfan í Reykjavík er 67 prósent dýrari en vörukarfan í Helsinki þar sem vöruverðið var lægst. Það land sem er næst Íslandi í verðlagi er Noregur en vörukarfan í Reykjavík er samt sem áður 40 prósent dýrari en í Osló.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði þessar niðurstöður sláandi en að þær komi honum þó ekki óvart. Þorsteinn spurði í kjölfarið landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag, hvort að breyting á matarverði hér á landi geti verið útspil stjórnvalda í kjaraviðræðum.
Fjörutíu prósent ódýrara í Osló en hér
Verðkönnunin var framkvæmd í desember í fyrra í leiðandi lágvöruverðsverslunum í höfuðborgum Norðurlandanna. Í könnuninni var borið saman verð á algengum neysluvörum í sambærilegum verslunum, vörur á borð við mjólk, osta, kjötvörur, grænmeti, ávexti og brauð. Vörukarfan sem verðlagseftirlitið bar saman var dýrust í Reykjavík þar sem hún kostaði 7.878 krónur og næst dýrust í Noregi, þar sem hún kostaði 5.631. Sambærileg vörukarfa í Kaupmannahöfn kostar 5.173 og 5.011 í Stokkhólmi. Ódýrasta matvörukarfan var í Helsinki þar sem hún kostaði 4729.
152 prósent verðmunur á brauðosti
Verð á þeim vörum kannað var reyndist oftast hæst í Reykjavík eða í 12 tilvikum af 18 en í 8 tilvikum af 18 var vöruverðið lægst í Helsinki. Mikill verðmunur var á kjöt- og mjólkurvörum og grænmeti í könnuninni. Þá kostar kílóið af brauðosti 1.411 krónur á Íslandi en 1.235 í Noregi sem er með næst hæsta verðið. Kílóverðið á brauðosti kostar aðeins 556 krónur í Helsinki og er því 152 prósent verðmunur á kílóverði af brauðosti milli Reykjavíkur og Helsinki.
Mikill verðmunur er einnig á kjötvörum en kíló af ungnautahakki kostar 1.598 krónur í Reykjavík, 1.326 í Oslo og 946 í Helsinki sem gerir 69 prósent verðmun á hæsta og lægsta verði. Þá er 240 prósent verðmunur á niðursneiddri skinku sem kostar 2.749 krónur á kílóið á Íslandi en 808 krónur í Finnlandi þar sem verðið er lægst. Verðmunurinn á grænmeti var sömuleiðis mikill en sem dæmi má nefna að 560 prósent munur var á hæsta og lægsta kílóverði á gulrótum og 213 prósent munur á hæsta og lægsta verði á kartöflum.
Kostnaður fjölskyldunnar liggur í landbúnaðarvörunum
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, spurði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um verðkönnun ASÍ í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Þorsteinn sagði niðurstöðurnar vera sláandi en að þær komu honum þó ekki á óvart. Hann benti jafnframt á að mikið væri af landbúnaðarvörum í körfunni sem framleiddar eru á Íslandi og að það hækkaði verð körfunnar. Hann sagði jafnframt að samkvæmt samanburði hjá OECD ríkjunum er enginn landbúnaður meira verndaður en sá íslenska. Því liggi kostnaður matarkörfunnar í landbúnaðarvörunum. „Það er auðvitað gríðarlegar kostnaður fyrir íslenskar fjölskyldur. Það má ætla að fjögurra manna íslensk fjölskylda borgi að meðaltali 60 til 70 þúsund krónur meira fyrir matarkörfunni á mánuði heldur en sambærileg fjölskylda á hinum Norðurlöndunum að meðaltali.“
Þorsteinn spyr því ráðherra hvort að breytingu á matarverð hér á landi geti verið innlegg stjórnvalda í kjaraviðræðum. „Þar sem ríkisstjórnin er að leita af einhverju útspili í kjaraviðræðum. Hefur hæstvirtur ráðherra hugsað að taka jafnvel hátt matarverð hér á landi, vegna verndarstefnu íslenskra stjórnvalda í landbúnaði, upp og breyta því sem innlegg í kjaraviðræður.“
Kristján Þór sagðist þá ekkert sérstaklega ætla að svara fyrir verðkönnun ASÍ en benti þingmanni á að „ það er fleira matur en feitt ket“. Kristján sagði jafnframt að Íslendingar flytji inn mjög mikið af matvörum og að tollmúrar Íslendinga séu miklu lægri í þeim efnum en til dæmis Evrópusambandið. Jafnframt væru 80 prósent af íslenskum matvælum flutt inn án tolla.
Kristján sagði jafnframt íslenskan landbúnað vera standa sig vel og framleiða góða vöru. „Það má alltaf deila um það við hvaða verði menn eru að kaupa nauðsynjavörur. Það er alveg hárrétt að í þessari könnun, eins og hún birtist okkur, þá er matarkarfan í þeim vörum sem bornar eru saman töluvert hærri hér. “ Hann bætti því að mikilvægt sé að taka fleiri þætti inn í útskýringar en verð í búðum. „Ég vænti þess að íslenskir framleiðendur þeirra matvara sem eru í þessari körfu muni leiða fram mismun í kaupgjaldi fólks og fleiri þætti sem spila inn í verðlagningu vöru á markaði.“
Enn fremur sagði Kristján að „það gæti vel verið að þetta sé atriði komi upp í tengslum við kjaraviðræðum stjórnvalda. En ég veit ekki til þess að þessi mál sé komin inn á það borð, svo því sé svarað“
Hvetja ASÍ til að gera kröfu um að dregið verði úr tollvernd á matvörum.
Félag atvinnurekanda sendu frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kom að þessi verðkönnun ASÍ væri þarft innlegg í umræður um kjör launafólks. „Að mati Félags atvinnurekenda er nú dauðafæri í tengslum við kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði að taka tollvernd matvöru til endurskoðunar, til hagsbóta fyrir almenning á Íslandi. Lækkun og/eða afnám tolla á matvörum er ein skilvirkasta aðgerðin sem hægt er að grípa til í því skyni að lækka verð á nauðsynjum og bæta þannig kjör launafólks. Það skiptir nefnilega ekki síður máli hversu margar krónur fara úr buddu almennings en hversu margar koma í hana.“
FA hvetur því Alþýðusambandið og aðildarfélög þess til að gera þá kröfu á hendur stjórnvöldum, í þágu félagsmanna sinna, að dregið verði úr tollvernd á matvörum.