Reykjavíkurborg og aðrir sem komu að verkefninu sem miðaði að því að auka kosningaþátttöku, verða að draga lærdóm af því og rýna í það sem aflaga fór.
Þetta kemur fram í fréttabréfi Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, en þar gerir hann að umtalsefni ákvörðun Persónuverndar er varðar skilabðasendingar í aðdraganda kosninga.
Reykjavíkurborg og rannsakendur við Háskóla Íslands notuðu persónuupplýsingar frá Þjóðskrá Íslands um unga kjósendur, erlenda ríkisborgara og konur 80 ára og eldri til að senda þeim skilaboð og bréf fyrir sveitastjórnarkosningarnar í maí 2018, með að það fyrir augum að auka kjörsókn þessara hópa.
Í ákvörðun Persónuverndar sem birt var í gær kemur fram að notkun og vinnsla Reykjavíkurborgar og rannsakanda við Háskóla Ísalnds hafi ekki í samræmi við lög um persónuvernd. Að mati Persónuverndar voru skilaboð í þessum sendingum gildishlaðin og til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þessara kjósenda í kosningunum.
Í fréttabréfinu segir Dagur um þetta: „Í dag hafa birst fréttir af því að Persónuvernd telji Reykjavíkurborg, Þjóðskrá og Háskóla Íslands ekki hafa farið að lögum um persónuvernd við framkvæmd eins þeirra verkefna sem efnt var til í því skyni að auka kosningaþátttöku í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna sl vor. Verkefnið sem um ræðir var eitt af þeim sem borgarráð sameinaðist um að efna til með samþykkt tillagna sem hópur sérfræðinga hafði unnið. Tillögunum var öllum ætlað að stuðla að aukinni kosningaþátttöku, á einn eða annan hátt. Niðurstaða Persónuverndar lítur meðal annars að rannsóknarhluta verkefnisins en fræðimenn við Háskóla Íslands lögðu upp rannsókn í samvinnu við borgina til að kanna hvort hvatning til að kjósa hefði áhrif á ungt fólk, og hvort mismunandi orðuð hvatning hefði mismikil áhrif. Fyrir liggur að rannsóknin hafði fengið samþykki Vísindasiðanefndar Háskóla Íslands. Reykjavíkurborg mun í kjölfar niðurstöðu Persónuverndar fara yfir úrskurðinn með samstarfsaðilum í verkefninu og draga lærdóm af. Í þeirri yfirferð þarf m.a. að skoða hvernig framkvæmd okkar er frábrugðin framkvæmd sambærilegra verkefna á Norðurlöndunum, sem m.a. var horft til sem fyrirmyndar í verkefninu.