„Annað er aðgerðaráætlun gegn mansali. Við erum náttúrulega að þverbrjóta alla alþjóðasamninga með því að hafa hundsað það. Síðasta aðgerðaráætlun var í gangi 2013-2016 og hún var aldrei fjármögnuð og aldrei virk. Þannig að við erum með allt niðrum okkur þar.“
Þetta sagði Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Þar ræddi hún meðal annars félagslega brotastarfsemi sem fyrirfinnst á Íslandi og aðgerðir sem grípa þarf til svo að hægt sé að vinna gegn henni.
Hún segir að þessi brotastarfsemi sé líka afar dýr samfélaginu og að nauðsynlegt sé, líkt og ASÍ hafi lagt til í skattatillögum sínum, að efla skattaeftirlit umtalsvert.
Annað atriði sé innleiðing keðjuábyrgðar sem nái neðan frá og upp. „Sem þýðir að ef þú ert vinnandi manneskja, það er svínað á þér, þá getur þú sótt rétt þinn upp alla keðjuna.“
Drífa ræðir einnig kjarasamningsviðræður, húsnæðismál, stéttaskiptingu og hugmyndafræðilegan ágreining innan ríkisstjórnarinnar í þættinum. Hægt er að sjá stiklu úr honum hér að neðan.