Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, segir málefni sem Vinstri græn kom með að borði íslenskra stjórnmála, þegar flokkurinn var stofnaður fyrir 20 árum, nú vera hluti af meginstraumi stjórnmálanna.
Þetta kom fram í ræðu sem hún hélt á flokksráðsfundi flokksins í dag, í tilefni af 20 ára afmæli flokksins.
„Og það sem við höfum séð á þessum tíma er gerbreyting á okkar málefnalegu stöðu. Þegar við Vinstri-græn töluðum um nýsköpun og að hverfa frá stóriðjustefnunni, eitthvað annað, þóttum við hlægileg og eitthvað annað var skilgreint sem fjallagrös og sauðskinnsskór. Þegar Vinstri-græn vildu gera kaup á vændi refsiverð vorum við púritanar sem hötuðu karlmenn og voru á móti kynlífi. Þegar við vildum fella niður leikskólagjöld vorum við óraunsætt draumórafólk. Og þegar við sögðum að kannski væru bankarnir of aðsópsmiklir vorum við sögð standa gegn framförum og jafnvel sjálfum nútímanum. En sagan sýnir að öll þessi mál eru nú hluti af meginstraumi stjórnmálanna,“ sagði Katrín.
Hún minntist tímans þegar Vinstri græn fengu góða kosningu árið 2009, og hvernig það hefði gengið að takast á við erfiðar aðstæður sem blöstu við eftir hrun fjármálakerfisins.
„Fyrstu tíu ár VG stóðum við utan ríkisstjórnar. Eftir góða kosningu árið 2009 blasti hins vegar beint við að halda áfram stjórnarsamstarfi við Samfylkingu en eins og við munum mynduðum við minnihlutastjórn með henni þann 1. febrúar 2009. Sú ríkisstjórn vann ótrúlegt starf á tímum sem líklega voru mestu umbrotatímar í íslensku samfélagi frá lýðveldisstofnun. Það tókst að ná ótrúlegum árangri við að rétta af stöðu ríkissjóðs með blandaðri leið skattahækkana og niðurskurðar sem var í andstöðu við meginstraum hagfræðikenninga þess tíma.
Mörg lönd fóru þá leið að bregðast eingöngu við alþjóðlegu fjármálakreppunni með niðurskurði, sem hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir almenning. Nýlega fór sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna gegn fátækt í heimsókn til Bretlands og sagði í skýrslu sinni að lokinni ferð að niðurskurðarstefna breskra stjórnvalda hefði skilið borgara landsins eftir í eymd og vesæld. Hann tók harðar til orða en við eigum að venjast um nágrannalönd okkar, sagði fimmta hvern landsmann búa við fátækt. Hann dró fram hversu kynjuð niðurskurðarstefnan er þegar hann sagði að þótt hópur af karlrembum hefði verið kallaður saman til að hanna kerfi sem ívilnaði körlum á kostnað kvenna, þá hefði sá hópur ekki getað lagt til margt sem var ekki þegar í framkvæmd,“ sagði Katrín.
Hún sagði sögu flokksins sína, að hann hefði haft mikil og jákvæð áhrif á stjórnmálin. „Ég lít á það sem forréttindi að fá að starfa með ykkur og trúi því að nú sem áður gerum við gagn í því verkefni að gera samfélagið betra og réttlátara fyrir okkur öll,“ sagði Katrín.