Markaðsvirði Icelandair hrundi niður um 16 prósent í dag, eftir að uppgjör félagsins var birt, en fjárfestar tóku tíðindum í því illa. Félagið tapaði 6,7 milljörðum á árinu 2018, og munaði þar ekki síst um 6,9 milljarða tap á síðasta ársfjórðungi ársins.
Markaðsvirði Icelandair nemur nú 43 milljörðum króna.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir að fjárhagsstaða Icelandair sé eftir sem áður sterk, og félagið sé nú í þeirri stöðu að geta brugðist við breytingum og sveiflum í rekstrarumhverfinu. Eigið fé félagsins var 471 milljónir Bandaríkjadala í lok árs, eða sem nemur um 56,5 milljörðum króna.
Eins og kunnugt er, hafa verið miklar sveiflur á markaðsvirði félagsins á undanförnum mánuðum, þar sem óvissa um stöðu WOW air hefur haft mikil áhrif á gang mála. Icelandair féll frá kaupum á félaginu, en enn standa yfir viðræður WOW air og Indigo Partners, um fyrirhugaða fjárfestingu Indigo í félaginu.
Öll félög á markaðnum lækkuðu í viðskiptum dagsins, nema Sjóvá og Marel. Markaðsvirði Marel hækkaði um 1,97 prósent og nemur markaðsvirði félagsins nú tæplega 300 milljörðum króna. Það er langsamlega verðmætasta félagið í kauphöllinni, en það undirbýr nú skráningu félagsins í erlenda kauphöll, þar sem til greina koma kauphallirnar í Amsterdam og Kaupmannahöfn.