Snæbjörn Brynjarsson, varaþingmaður Pírata, hefur ákveðið að segja af sér varaþingmennsku eftir að hafa misst stjórn á skapi sínu á skemmtistað í Reykjavík um helgina. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hans í morgun.
„Aðfararnótt laugardags rakst ég á Ernu Ýr Öldudóttur, blaðamann og fyrrverandi formann framkvæmdaráðs Pírata, á skemmtistað í Reykjavík. Ég missti stjórn á skapi mínu og sagði hluti við hana sem voru með öllu óviðeigandi.
Sú hegðun sem ég sýndi umrætt kvöld er ekki sæmandi kjörnum fulltrúa. Ég mun axla fulla ábyrgð á gjörðum mínum og bið alla hlutaðeigandi afsökunar og vona að sem minnstur skaði hafi hlotist af,“ segir hann í færslunni.
„Í ljósi atburða liðinnar helgar hef ég því ákveðið að segja af mér sem varaþingmaður Pírata, frekar en að láta þessa hegðun kasta rýrð á samstarfsfélaga mína og Alþingi. Mér er annt um virðingu Alþingis, traust fólks á kjörnum fulltrúum, en sér í lagi er mér annt um þau þúsundir manna sem kusu Pírata og öll þau hundruð sem lögðu á sig þrotlausa sjálfboðavinnu til að tryggja mér kjör. Af virðingu fyrir því umboði sem allt þetta fólk veitti mér hef ég ákveðið að segja af mér tafarlaust sem varaþingmaður Pírata fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður og víkja úr öllum ábyrgðarstöðum sem Píratar hafa falið mér.
Ég ætla mér að læra af þessum mistökum og biðst innilega afsökunar á hegðun minni,“ segir hann.
Í athugasemd undir færslunni segir Snæbjörn það ekki vera heimsendi þó að einhver segi af sér. „Ég varð mér til minnkunar, en lífið heldur alveg áfram. Það er flott lið með mér á lista, allir sem eru á þessum lista væru frábærir varaþingmenn. Enginn einn maður er merkilegri en hreyfingin sem hann bauð sig fram fyrir.“
Sæl, öll sömul. Aðfararnótt laugardags rakst ég á Ernu Ýr Öldudóttur, blaðamann og fyrrverandi formann framkvæmdaráðs...
Posted by Snaebjorn Brynjarsson on Monday, February 11, 2019
Aldrei talað við hann í eigin persónu
Erna Ýr segir á Facabook-síðu sinni að hún láti nú ekki margt setja sig úr skorðum, en að hún hafi orðið fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu aðfaranótt laugardagsins 9. febrúar síðastliðinn á Kaffibarnum, að Snæbjörn Brynjarsson, sem gegndi varaþingmennsku fyrir Pírata á Alþingi síðast í desember 2018, hafi veist að henni með ógnunum. „Það skal tekið fram að ég þekki hann ekkert og hef aldrei talað við hann í eigin persónu,“ segir hún.
„Ég stóð á útisvæði staðarins og átti þar ánægjulegt spjall við tvo menn, þegar Snæbjörn birtist fyrir aftan þá og æpti að mér: „Erna, ég hata þig, mig langar að berja þig,” og skoraði á mig að mæta sér fyrir utan staðinn.
Ég svaraði honum engu en hinir ágætu menn, sem stóðu og spjölluðu við mig, sneru sér við, slógu um mig skjaldborg og vísuðu honum á brott, og megi þeir eiga góðar þakkir fyrir. Þeir voru alveg jafn furðu lostnir og ég, því að Snæbjörn væri nú vinur þeirra,“ segir hún á Facebook.
Finnst þetta eiga erindi við almenning
Erna Ýr segist hafa orðið nokkuð skelkuð eftir þessa reynslu, en eftir að hafa jafnað sig aðeins og hugsað málið í samhengi við þá umræðu sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum misserum, þyki henni þetta óþægilega atvik eiga erindi við almenning, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem Snæbjörn hefur gegnt á Alþingi.
„Valkvætt minni hans um ógnandi framkomu sína og orð í minn garð, ásamt kjánalegum og ótrúverðugum skýringum sem hann gefur Fréttablaðinu, gefa tilefni til að efast um dómgreind hans og hugmyndir um hlutverk fjölmiðla í lýðræðisríki. Afsökunarbeiðni Snæbjörns, skreytt þeirri aukaskýringu að hann hafi verið „í glasi” er því ekki túkallsins virði,“ segir hún.
Ég læt nú ekki margt setja mig úr skorðum, en ég varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu aðfaranótt laugardagsins 9....
Posted by Erna Ýr Öldudóttir on Monday, February 11, 2019
Mikið niðri fyrir
Í Fréttablaðinu í morgun var fjallað um málið en þar var rætt við annan mannanna sem urðu vitni að atvikinu og er kunnugur Snæbirni. Hann staðfesti að Snæbjörn hefði lýst fyrirlitningu sinni á Ernu, verið mikið niðri fyrir en sagði hann ekki hafa hótað henni ofbeldi.
„Ég myndi aldrei hóta blaðamanni, en ég skulda henni samt afsökunarbeiðni fyrir að vera að segja skoðun mína á Birni Inga. Maður á ekki að vera með leiðindi við fólk í glasi,“ sagði Snæbjörn í samtali við Fréttablaðið.