Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist mjög óhress með þær launahækkanir sem átt hafa sér stað hjá hluta forstjóra ríkisfyrirtækja og er sammála þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram um að þær séu taktlausar. „Það er ekki annað að sjá en að þau tilmæli sem send voru á sínum tíma, í upphafi árs 2017, hafi verið höfð að engu.“
Þetta sagði Bjarni í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hann sagði enn fremur að stjórnarmenn í ríkisfyrirtækjum á Íslandi væru þátttakendur í samfélagi þar sem ætti sér stað barátta um að koma í veg fyrir of mikla gliðnun milli launa þeirra sem berjast fyrir betri kjörum og þeirra sem stýra ríkisfyrirtækjum. „Aðalatriði í þessu öllu er að við ætlumst til þess að menn séu að ganga í takt og beri eitthvað skynbragð á því sem er að gerast í samfélaginu.“ Bjarni útilokar ekki að grípa við aðgerða vegna málsins en sagði eðlilegt að gefa stjórnum ríkisfyrirtækja og Bankasýslu ríkisins færi á að svara fyrir sig fyrst.
Tilmælin sem Bjarni vísar til komu frá Benedikt Jóhannessyni, þá fjármála- og efnahagsráðherra, í janúar 2017, eftir að ákveðið hafði verið með lagabreytingu að færa forstjóra ríkisfyrirtækja undan kjararáði frá og með 1. júní það ár. Benedikt beindi því til stjórna allra ríkisfyrirtækja að sýna hófsemi í launahækkunum. Við því hafa fæstar þeirra orðið.
Fjölmargar aðrar launahækkanir
Þetta er ekki eina launahækkun ríkisforstjóra frá því að ákvörðun um launakjör þeirra voru færð frá Kjararáði og yfir til stjórna fyrirtækjanna. Laun útvarpsstjóra hækkuðu um 16 prósent í 1,8 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Isavia um 20 prósent í 2,1 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Landsvirkjunar um 32 prósent upp í 2,7 milljónir króna á mánuði, laun forstjóra Íslandspósts um 17,6 prósent í 1,7 milljónir króna á mánuði og laun forstjóra Landsnets um tíu prósent í 1,8 milljónir króna á mánuði.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hefur einnig haft mjög góð laun, en hún var með 4,8 milljónir króna í laun og árangurstengdar greiðslur á árinu 2017. Í fyrradag sendi Íslandsbanki frá sér tilkynningu þar sem fram kom að Birna hefði óskað eftir því í nóvember síðastliðnum að laun hennar yrðu lækkuð og að þau séu nú 4,2 milljónir króna á mánuði. Samkvæmt upplýsingum sem Kjarninn hefur aflað tók sú launalækkun gildi 1. janúar 2019 og heildarlaun Birnu á síðasta ári lækkuðu því ekki frá því sem þau voru 2017. Íslandsbanki mun birta ársreikning sinn fyrir árið 2018 í dag, miðvikudag, og þar verður birt sundurliðun á launum Birnu.
Fengu skýr fyrirmæli
Bjarni sagði við Morgunútvarpið að hann hafi litið svo á að stjórnir ríkisfyrirtækja hefðu fengið skýr fyrirmæli auk þess sem þeir bar að gæta að lagaskyldu við ákvörðun launa forstjóra. Hann sendi í gær bréf til stjórna allra ríkisfyrirtækja og Bankasýslu ríkisins, sem fer með eignarhald ríkisins í Landsbankanum og Íslandsbanka, þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um það hvernig hefði verið farið eftir tilmælum Benedikts á sínum tíma og þau höfð til hliðsjónar við ákvörðun launa forstjóra. „Hafi stjórnir ákvarðað framkvæmdastjórum launahækkanir umfram almenna launaþróun, er óskað eftir því að þær færi rök fyrir þeim ákvörðunum með tilvísunar til eigandastefnu.“
Bjarni sagði sanngjarnt og eðlilegt að gefa stjórnunum tækifæri á því að skýra mál sitt og þess vegna hefði hann sent bréfið. „Þetta er samt sem áður þannig að það þarf að skoða hvert og eitt tilvik varðandi breytingarnar.“ Hinar miklu hækkanir á launum forstjóra skýrist í einhverjum tilfellum af því að í gildi var ráðningarsamningur frá fyrri tíma, eða áður en að allir ríkisforstjórar voru felldir undir Kjararáð í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur og það viðmið sett að enginn þeirra ætti að vera með hærri laun en forsætisráðherra. Bjarni sagði einnig mikilvægt að skoða launaþróun ríkisforstjóranna yfir lengra tímabil en gert hefur verið í umræðunni.