Laun bankastjóra Íslandsbanka, Birnu Einarsdóttur, hafa ekki hækkað óhóflega frá því ríkið varð eigandi bankans að öllu leyti, 1. janúar 2016, og eftir að þau voru lækkuð í nóvember í fyrra, þá verða þau lægri á þessu ári en þau voru 2016.
Þetta segir Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka.
Mánaðarlaun Birnu voru 5 milljónir árið 2016 en eftir lækkun á laununum verða þau 4,8 milljónir á þessu ári. Það er um 5,3 prósent lækkun, en á sama tíma hækkaði launavísitala um rúmlega 23 prósent.
Í samtali við Kjarnann í kvöld, sagði Friðrik að Íslandsbanki hefði ekki verið að hækka laun óhóflega hjá stjórnendum bankans á undanförnum árum, eða frá því að ríkið eignaðist bankann.
Þá vildi hann ekki tjá sig um launamun bankastjóra Íslandsbankans annars vegar, og bankastjóra Landsbankans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, hins vegar, og sagði að það væri Bankasýslunnar að svara fyrir stefnu eiganda, það er ríkisins, og síðan bankaráðs Landsbankans að svara fyrir um laun bankastjóra Landsbankans.
Birna Einarsdóttir var með 5,3 milljónir í mánaðarlaun í fyrra, og hækkuðu þau um tæplega 10 prósent milli ára, en Lilja Björk er með 3,8 milljónir.
Hann sagði eðlilegt að rýnt væri í laun stjórnenda ríkisins, þegar kjaraviðræður væru annars vegar, og að stjórn Íslandsbanka myndi gefa glögga mynd af því hvernig mál hefðu þróast innan bankans, frá því að ríkið varð eigandi hans í byrjun árs 2016, eins og Bankasýslan hefur óskað eftir með bréfi.
Aðspurður sagði hann enn fremur að vissulega væru launin há, og hefðu verið það þegar ríkið varð eigandi bankans, en að það væri önnur umræða hvort lækka ætti launin og fara þannig gegn fyrirliggjandi samningum við starfsfólk, með tilheyrandi kostnaði sem því fylgdi.
Friðrik sagði rekstur Íslandsbanka hafa gengið nokkuð vel í fyrra, en aðspurður sagði hann að kostnaðarhlutfall bankans, það er rekstrarkostnaður í hlutfalli við tekjur, væri of hátt.
Það væri mikilvægt verkefni bankans að ná því niður að markmiði, sem er 55 prósent, en í fyrra var hlutfallið ríflega 66 prósent. Í samanburði þá var kostnaðarhlutfall Landsbankans 45,5 prósent.
Friðrik sagði stefnuna vera skýra um að bæði lækka rekstrarkostnað, og eins að auka tekjur hans, og þannig styrkja undirliggjandi rekstur til framtíðar litið.
Íslandsbanki hagnaðist um 10,6 milljarða króna í fyrra og lagt er til að 5,3 milljarðar verði greiddir í arð til ríkisins vegna rekstrar á árinu 2018.
Eigið fé bankans nam ríflega 176 milljörðum króna í lok árs 2018.