Hagnaður samstæðu Arion banka á fjórða ársfjórðungi 2018 nam 1,6 milljarði króna samanborið við 4,1 milljarðs króna tap á sama tímabili 2017, og var hagnaðurinn á árinu 2018 7,8 milljarðar króna. Á árinu 2017 var hagnaðurinn hins vegar 14,4 milljarðar.
„Afkoma Arion banka á fjórða ársfjórðungi var undir væntingum og sama má segja um árið í heild. Við sjáum hins vegar jákvæða þróun í grunnstarfsemi bankans og það er ánægjulegt að sjá að vaxtamunur hækkar á fjórða ársfjórðungi í samræmi við markmið okkar. Erfiðar aðstæður á hluta- og skuldabréfamörkuðum og ekki síst hræringar í flugrekstri settu mark sitt á starfsemina, bæði á fjórðungnum og á árinu í heild. Eitt helsta verkefni þessa árs verður að auka arðsemi í rekstri bankans og hafa ýmis verkefni verðið sett í gang með það að markmiði. Það er engu síður ljóst að það er erfitt verkefni að ná viðunandi arðsemi án umtalsverðra hækkana á útlánavöxtum þegar ríkisvaldið viðheldur ofursköttum á bankakerfið og eftirlitsaðilar bæta við eiginfjárkröfum og öðrum álögum,“ segir Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, í tilkynningu til kauphallar.
Arðsemi eigin fjár var 3,2 prósent á fjórða ársfjórðungi 2018 samanborið við 7,3 prósent á sama tímabili árið 2017, en það telst fremur lág arðsemi í bankarekstri. Arðsemi var 3,7 prósent samanborið við 6,6 prósent arðsemi á árinu 2017.
Markaðsvirði bankans, sem skráður er tvíhliða á íslenska og sænska Nasdaq markaðinn, er nú 154 milljarðar en eigið fé Arion banka var 200,9 milljarðar í lok árs. Það þýðir að markaðsvirði bankans er nú 76 prósent af eigin fé hans.
Stjórn bankans leggur til að tíu milljarða króna arður verði greiddur eða sem samsvarar 5 krónum á hlut. Arðgreiðslan er liður í áframhaldandi hagræðingu á samsetningu eigin fjár bankans, segir í tilkynningu.
Heildareignir námu 1.164,3 milljörðum króna í árslok 2018 samanborið við 1.147,8 milljarða króna í árslok 2017.
Eiginfjárhlutfall bankans var 22,0% í árslok 2018 en var 24,0% í árslok 2017. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,2% í árslok, samanborið við 23.6% í árslok 2017.
Höskuldur segir í tilkynningu að unnið sé að sölu á Valitor í samstarfi við Citi bankann, en búist er við því að tíðindi berist af þeirri vinnu á þessu ári.
Þá minnist Höskuldur enn fremur á það, að Arion banki hafi verið markaðsfyrirtæki ársins á árinu 2018, og náð frekari fótfestu með vörur sínar og þjónustu, ekki síst í gegnum stafrænar leiðir. „Í raun er svo komið að stafrænu lausnirnar okkar vekja athygli út fyrir landsteinana en bankinn fékk tvenn alþjóðleg verðlaun fyrir þær í desember. Við höfum nú á rúmum tveimur árum kynnt um 20 nýjar stafrænar lausnir og hefur útibúanet bankans tekið breytingum í takt við vinsældir þessara nýju lausna. Á fjórðungnum opnuðum við tvær nýjar afgreiðslur sem taka mið af stafrænni þjónustu og nýta mun minna húsnæði en eldri útbú, alls fækkaði fermetrum sem útibúin okkar á höfuðborgarsvæðinu nýta um tæp 40% á árinu. Það gefur augaleið að þessi þróun hefur áhrif á hvernig við vinnum, hefur aukið skilvirkni í okkar störfum og þjónustu, en ekki síður hefur hún áhrif á hvernig viðskiptavinir sækja sér fjármálaþjónustu. Í dag gera þeir það í 97% tilfella í gegnum stafrænar leiðir, eins og appið, netbankann og vef bankans og jókst stafræn sala um 125% ár árinu,“ segir Höskuldur.