Íslandsbanki, sem er í eigu ríkisins, hagnaðist um 10,6 milljarða króna eftir skatta og var arðsemi eigin fjár bankans 6,1 prósent. Stjórn bankans leggur til 5,3 milljarða króna arðgreiðslu til ríkisins, vegna ársins 2018. Það samsvarar 50 prósent af hagnaði bankans og er í samræmi við langtímastefnu bankans um 40 til 50 prósent arðgreiðsluhlutfall af hagnaði.
Kostnaðarhlutfall, það er hlutfall rekstrarkostnaðar af tekjum bankans, var 66,3 prósent en lagntímamarkmið bankans er að það sé 55 prósent.
Kostnaðarhlutfall Landsbankans er þó nokkru lægra en Íslandsbanka, en var 45,5 prósent í lok árs.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir í tilkynningu að afkoma bankans hafi verið ágæt. Unnið hafi verið að því undanfarin ár að nútímavæða bankann og byggja upp ábyrga viðskipta- og áhættumenningu. „Við ætlum að halda þeirri vegferð áfram á nýju ári með því að ráðast í stefnumótun sem við erum viss um að muni skila sér í enn betri banka til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Við fögnum útgáfu nýrrar hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út í lok síðasta árs sem staðfestir hve miklar umbætur hafa átt sér stað í íslensku bankakerfi á undanförnum árum. Hvítbókin bendir einnig á þunga skattbyrði íslensks bankakerfis sem hefur fyrst og fremst bitnað á íslenskum neytendum og vonumst við til að sjá breytingar hvað þetta varðar,“ segir Birna.
Útlánavöxtur bankans var umtalsverður á árinu eða 12 prósent, og námu ný útlán 239 milljörðum króna.
Eigið fé bankans nam 176,3 milljörðum króna í árslok og heildareignir námu 1.130,4 milljörðum króna.
Í skýrslu stjórnar í ársreikningi segir að efnahagsreikningur bankans sé traustur og horfur almennt jákvæðar. „Horfur í starfsemi bankans eru góðar. Efnahagsreikningur bankans er traustur og eiginfjár- og lausafjárstöður góðar, bæði í íslenskri krónu og erlendum myntum. Arðsemi hefur minnkað síðustu ár og það verður krefjandi fyrir bankann að ná 8-10% markmiði um arðsemi af reglulegri starfsemi. Eftir því sem hægist á vexti í íslensku efnahagslífi þá mun draga úr útlánavexti og því mikil áskorun fyrir stjórnendur að auka arðsemi. Bankinn mun halda áfram að fjárfesta í innviðum upplýsingatækni og stafrænum lausnum og mæta með því nýjum kröfum í regluverkinu og bæta upplifun viðskiptavina,“ segir í skýrslunni.
Stjórn bankans skipa Friðrik Sophusson, stjórnarformaður, Helga Valfells, varaformaður, Anna Þórðardóttir, Auður Finnbogadóttir, Árni Stefánsson, Hallgrímur Snorrason og Heiðrún Jónsdóttir