Heildarlaun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, voru 63,5 milljónir króna á árinu 2018, eða sem nemur um 5,3 milljónum króna á mánuði.
Árið 2017 voru heildarlaunin, það er laun með hlunnindum og kaupauka, 58 milljónir króna, eða um 4,8 milljónir á mánuði. Gert er ráð fyrir því að heildarlaun muni lækka á árinu 2019, miðað við 2018, og verði um 57,5 milljónir, eða sem nemur um 4,8 milljónum á mánuði.
Kaupaukagreiðslur námu 3,9 milljónum í fyrra en árið 2017 voru þær 9,7 milljónir.
Sérstakur kaupauki var aflagður frá og með 1. janúar 2017 að beiðni Bankasýslu ríkisins og eru kaupaukagreiðslur eftir það í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins um frestun greiðslu á 40% kaupauka um að lágmarki þrjú ár.
Laun Birnu eru umtalsvert hærri en laun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, en mánaðarlaun hennar eru um 3,8 milljónir króna.
Ríkið á Íslandsbanka og Landsbankann, og heldur Bankasýsla ríkisins á eignarhlutum í bönkunum.
Hlutur ríkisins í þeim síðarnefnda er 98,2 prósent, auk þess sem bankinn á sjálfur 1,5 prósent hlut af eigin bréfum. Um 0,3 prósent hlutur er síðan eigu starfsmanna bankans, að mestu leyti.
Eins og kunnugt er hækkaði bankaráð Landsbankans mánaðarlaun Lilju Bjarkar í 3,8 milljónir króna í apríl í fyrra. Með því hafa laun bankastjórans hækkað um 140 prósent á fjórum árum, sem er fjórum sinnum meiri hækkun en hjá almennri launavísitölu.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa bæði gagnrýnt launskrið stjórnenda ríkisbankanna, og sagt það ekki vera í samræmi við tilmæli frá þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikti Jóhannessyni, frá árinu 2017, en hann sendi þá öllum stjórnum ríkisfyrirtækja bréf og bað þau að gæta hófst í launahækkunum, ekki síst í ljósi viðkvæmrar stöðu á vinnumarkaði vegna kjaraviðræðna. .
Benedikt sagði sjálfur, í viðtali við Kastljóss RÚV í gær, að það væri grafalvarlegt að eftir þessum tilmælum hefði ekki verið farið. Hann sagði að það hefðu verið mistök að reka ekki allar stjórnirnar fyrir að fara ekki að þessum tilmælum.
Bankaráð Landsbankans sagði í yfirlýsingu, að launaþróun bankastjórans væri í takt við eigendastefnu ríkisins og hluthafastefnu Landsbankans, þar sem lagt er upp með að hafa laun bankastjórans samkeppnishæf.