Alls eru 24,7 prósent allra starfsmanna í fjármálafyrirtækjum með yfir eina milljón króna í laun á mánuði. Þar af eru 12,6 prósent með meira en 1,2 milljónir króna á mánuði en ekki er greint frekar hversu há laun þess hóps eru yfir eru.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í kjarakönnun sem Gallup gerði fyrir Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) í október í fyrra. Alls tóku 2.786 félagsmenn samtakana þátt, sem þýðir að þátttakan var 74 prósent. Samkvæmt frétt á heimasíðu SSF gefur könnunin „mjög ábyggilega mynd af kaupi og kjörum félagsmanna“. Þorri félagsmanna í samtökunum vinnur hjá bönkum landsins.
Í könnuninni kom meðal annars fram að meðaltalslaun starfsmanna í fjármálafyrirtækjum hafi verið 838 þúsund krónur á mánuði í október í fyrra. Þau höfðu hækkað úr 692 þúsund í febrúar 2006, eða um 21 prósent. Á sama hækkaði launavísitalan um 18,7 prósent.
Þeir sem skilgreindir voru sem „hærri stjórnendur“, alls 169 þeirra sem svöruðu könnuninni, voru með tæplega 1,5 milljónir króna að meðaltali í laun á mánuði. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, er líkast til launahæsti bankamaður landsins. Hann var með rúmlega 6,2 milljónir króna í laun á árinu 2018.
til samanburðar má nefna að miðgildi heildarlauna á Íslandi á árinu 2017 var 618 þúsund krónur, sem þýðir að helmingur launamanna var með laun undir þeirri upphæð. Laun Höskuldar eru því tíföld sú upphæð.
Leggja mesta áherslu á styttri vinnuviku
Flestir hátt launaðir starfsmenn fjármálafyrirtækja eru ánægðir með launin sín, en ekki allir. Þannig sýndi könnunin að um tíu prósent þeirra sem eru með yfir eina milljón króna í laun á mánuði séu óánægð með það sem þau fá útborgað.
Könnunin sýnir einnig að fleiri starfsmenn fjármálafyrirtækja leggja áherslu á styttingu vinnutíma (41,9 prósent) en hækkun launa (39,1 prósent) í yifrstandandi kjarasamningum. Í sambærilegri könnun sem Gallup gerði fyrir Eflingu, og kynnt var í desember í fyrra, kom fram að 61 prósent félagsmanna þar vildi leggja mesta áherslu á hækkun launa og 15 prósent á húsnæðismál. Einungis ellefu prósent töldu styttingu vinnutíma vera mikilvægasta kjaramálið. Hjá Eflingu voru enda meðatalsheildarlaun félagsmanna sem voru í 100 prósent starfi 479 þúsund krónur. Það þýðir að meðal heildarlauna þeirra sem starfa í fjármálageiranum eru 75 prósent hærri en félagsmanna í Eflingu.